„Vilji til að stofna hagsmunafélag ungra Austfirðinga“

„Sú mynd sem ungt fólk á Austurlandi hefur af svæðinu og möguleikum þess er margt áhugaverð og ég held að það sé sterkt fyrir framtíð fjórðungsins hversu vel það er tilbúið að vinna saman þvert yfir sveitarfélög og hefur mikla óbeit á einhverjum gömlum og úldnum hrepparíg,” segir Dagur Skírnir Óðinsson, einn af skipuleggjendum undirbúningsfundar sem haldinn var á Borgarfirði um helgina.



Líf og fjör var á Borgarfirði eystra um helgina þar sem um 30 ungir Austfirðingar komu saman til að leggja drög að stórri Byggðamálaráðstefnu með áherslu á ungt fólk sem halda á í vor. Fulltrúum frá öllum byggðakjörnum á Austurlandi var boðið að taka þátt á fundinum.

Tvö erindi voru á dagskrá, annarsvegar „Komdu heim - eða ekki“, þar sem Sigrún Blöndal, formaður SSA, talaði um menntun og starfsmöguleika á Austurlandi í víðu samhengi. Hinsvegar hélt stjórnsýslufræðingurinn Ásta Hlín Magnúsdóttir erindið „Austurland þarf konur - Hvað þurfa konur?“, þar sem hún fjallaði um kynjahalla og jafnréttismál. Að þeim loknum var „þjóðfundur“ þar sem gestir ræddu skipulag áætlaðar ráðstefnu, kosti og galla Austurlands sem og framtíðarsýn fyrir fjórðungin.


Stuðningur hreppsins gerði fundinn mögulegan

Dagur Skírnir Óðinsson segir að fundarhöldin hefðu aldrei verið möguleg ef ekki hefði verið fyrir mikinn stuðning Borgarfjarðarhrepps.

„Við vorum í raun ótrúleg heppin þar sem Borgarfjarðarhreppur hefur síðustu vikur keyrt verkefnið „Að vera valkostur“ síðustu vikur og haft ungt fólk í vinnu hjá sér við nákvæmlega svona pælingar,“ segir Dagur Skírnir og vísar til þeirra Ástu Hlínar Magnúsdóttur, Kristjáns Geirs Þorsteinssonar og Óttars Más Kárasonar.


Almenn ánægja með framtakið

„Það var í raun frábært að geta haft þrjá aðila á launum við að skipuleggja fundinn, það væri ekki hægt að gera þetta allt í sjálfboðavinnu. Þau þrjú sáu um mestu vinnuna á meðan að ég og Gunnar Gunnarsson, formaður UÍA, höfum verið svona á hliðarlínunni. Borgarfjarðarhreppur og SSA styrktu okkur líka með myndarlegum fjárstyrkjum, Ölgerðin og Fellabakarí gáfu veitingar og Arngrímur Viðar Ásgeirsson í Álfheimum var mjög liðlegur í öllu og á hann þakkir skildar fyrir sitt framlag.“

Dagur segir að góður andi hafi verið á fundinum og almenn ánægja með framtakið.

„Meðal málefna sem rædd voru á fundinum voru bættar vegasamgöngur og sátt í samgöngumálum á Austurlandi, mikilvægi flugsamgangna innanlands sem og út fyrir landssteinanna, sjálfbærni og umhverfisvernd, deilihagkerfi, heilbrigðisþjónusta, húsnæðismál og nýsköpun. Ríkur vilji er hjá hópnum til að stofna hagsmunafélag ungra Austfirðinga og var kjörin nefnd til undirbúa stofnun slíks félags.“

Ljósmynd: GG 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.