Vilja stofna eitt stærsta steinasafn landsins á Breiðdalsvík

Náttúruminjasafn Íslands vill stofna eitt stærsta steinasafn landsins á Breiðdalsvík. Safnið myndi byggja á steinasöfnun Björns Björgvinssonar sem búsettur er á staðnum. Tveir jarðfræðingar hafa unnið s.l. tvo mánuði við að flokka steina og mynda þá. Um er að ræða safn upp á um tuttugu þúsund steina.

Hilmar Malmquist forstöðumaður Náttúrminjasafns Íslands segir í samtali við Austurfrétt að safn á borð við þetta hafi ómetanlegt gildi fyrir jarðfræðinga. Og sé jafnframt áhugavert fyrir almenning.

„Björn Björgvinsson safnaði ekki bara sjálfur steinum heldur hefur hann í gegnum tíðina fengið í hendur söfn frá öðrum,“ segir Hilmar. „Fyrir utan Austurland eru þetta því steinar víðsvegar af landinu og geta því gefið jarðfræðingum ómetanlega mynd af jarðfræði Íslands,“ segir Hilmar.

Hilmar segir einnig að þess megi geta að að í safnkostinum sé meðal annars að finna stærðar grjóthnullunga, kristalla og fægða granítsteina eftir Sigurð Guðmundsson, hinn kunna listamann sem er höfundur eggjanna á Djúpavogi. Hefur Sigurður sýnt því mikinn áhuga að koma að uppsetningu steinanna á Breiðdalsvík. Stefnt er að því að opna sýningu um þennan merkilega safnkost Björns ekki síðar en sumarið 2022.
 
„Það er mikill akkur af því fyrir opinbera fræðslustofnun á borð við Náttúruminjasafnið að eignast safnkost af því tagi sem hér um ræðir, sérstaklega þar sem hann hentar vel til sýningahalds og almenningsfræðslu,“ segir Hilmar. „Þá er vísindalegt gildi safnkostsins mikið vegna ítarlegrar skráningar á fundarstað eintaka. Jafnframt hafa mörg eintök mikið fágætisgildi og enn önnur eru skrautsteinar sem hafa mikið fagurfræðilegt gildi.“

Fengu starfsaðstöðu í hlöðu

Sem fyrr segir hafa tveir jarðfræðingar á vegum Náttúruminjasafnsins unnið s.l. tvo mánuði við að flokka og mynda steinana í safninu. Þeir fengu starfsaðstöðu í hlöðu á bæ í Breiðdal.

„Við erum nú búnir að senda erindi til sveitarstjórnar um málið og aðrir ráðamenn þurfa einnig að koma að því,“ segir Hilmar. „Það þarf meðal annars að finna hentugt húsnæði undir safnið og við beinum sjónum okkar að gamla frystihúsinu á Breiðdalsvík.“

Sem stendur er gamla frystihúsið nýtt að hluta til af Hótel Bláfelli fyrir veislur en Hilmar telur að steinasafnið geti líka vel rúmast þar innandyra.

Jarðfræðingarnir Irma Gná og Madison MacKenzi vinna að skráningu safnkostsins í hlöðunni. Mynd: Náttúruminjasafn Íslands.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.