Vilja hafa síðasta spölinn fallegan

Samvinnufélag útgerðarmanna (SÚN) og Olíusamlag útvegsmanna (OÚN) styrktu á dögunum félagið Bjarmann í Neskaupstað til kaupa á sérútbúnum útfararbíl af gerðinni Mercedes Bens Vito sem leysti af hólmi gamlan bíl sem var úr sér genginn.



Félagið Bjarminn var stofnað af þremur félögum árið 2000 og er rekið í sjálfboðavinnu. Steindór Bjarnason er einn þeirra.

„Þetta byrjaði fyrir sextán árum þegar séra Sigurður Rúnar Ragnarsson sneri aftur heim og þótti lítið til þessa hluta útfararferlisins koma hér í Neskaupstað en notast hafði verið við vinnubíl sjúkrahússins til að keyra kistunni frá kirkjunni í garðinn. Hann hvatti til þess að eitthvað yrði gert í málinu og úr varð að við tveir, ásamt Heiðari Sveinssyni, tókum okkur saman og stofnuðum Bjarmann,“ segir Steindór.


Annaðhvort að hætta eða fá almennilegan bíl

Steindór segir að með hjálp félaga og samtaka hafi fyrst verið fjárfest í sérútbúnum bíl frá Danmörku sem ekki stóð undir væntingum en var þó notaður í þrjú ár. Þá hafi þeir fengið annan frá Bandaríkjunum sem ekki var heldur upp á sitt besta en gekk í tíu ár með því að þeir lögðu á sig ómælda vinnu við að halda honum í lagi.

„Þegar var svo komið að því að skoða bílinn, sem orðinn var fornbíll, áttuðum við okkur á því að það myndi ekki svara kostnaði þannig að annaðhvort var að hætta þessu hreinlega eða þá að leita leiða til að fjármagna kaup á nýjum bíl.

Við erum svo gríðarlega heppin að eiga fyrirtæki eins og SÚN hér í bænum en þeir brugðust vel við þegar við leituðum til þeirra. Við vorum komin með bíl í Reykjavík en þrátt fyrir velvilja SÚN vantaði enn upp á þannig að dótturfyrirtækið, OÚN, hljóp undir bagga og kláraði dæmið með okkur. Í dag eigum við því sex ára gamlan góðan bíl sem ekkert þarf að gera fyrir og mun ganga næstu tuttugu árin.“


Allt unnið í sjálfboðavinnu

Steindór segir þá Bjarmamenn finna fyrir miklu þakklæti í sinn garð hjá samfélaginu.

„Við fáum klapp á bakið og finnum fyrir mikilli velvild. Þetta er þjónusta sem enginn vill missa þó svo að enginn vilji á hinn bóginn kannast við þetta. Við höfum aldrei tekið krónu fyrir þetta en teljum það ekki eftir okkur, þetta er bara eins og hvert annað sjálfboðastarf. Að mínu mati er þetta þjónusta sem verður að vera til staðar í hverju byggðarlagi, að hafa síðasta spölinn fallegan og af virðingu við hinn látna, þannig viljum við hafa það.“

Steindór segir starfið hafa gefið sér mikið. „Fyrst og fremst vegna góðvildar minnar í garð byggðarlagsins en hér er ég fæddur og uppalinn og vil láta gott af mér leiða. Við erum óskaplega fegnir með hvernig málin standa í dag og það verður ekkert mál þegar aðrir taka við þessu. Áður buðum við upp á þá þjónustu að sækja kistur á aðra firði en urðum að hætta því vegna þess hve lélegur bíllinn var orðinn. Nú er ekkert því til fyrirstöðu lengur.“

 

Líkbíll í Neskaupstað2

Líkbíll í Neskaupstað1

Ljósmyndir: Guðmundur Gíslason. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.