Vilja færa bændaskógrækt milli ráðuneyta

Skógarbændur á Austurlandi vilja að stjórnsýsla bændaskógræktar verði færð frá umhverfisráðuneyti til landbúnaðarráðuneytis. Þeir segja það rökrétt í ljósi vaxtar greinarinnar.

Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi Félags skógarbænda á Austurlandi. Þetta er reyndar ekki í fyrsta skipti sem félagið ályktar um málið, það gerði það líka árið 2018 og vildi fá aðalfund Landssambands skógareigenda til að fylgja málinu eftir. Af því varð ekki þá.

Maríanna Jóhannsdóttir, formaður Félags skógarbænda á Austurlandi, segir vöxt bændaskógræktar á lögbýlum síðustu ár þýða að hún eigi frekar heima undir atvinnuvegaráðuneytinu.

„Hún er orðin að alvöru búgrein og þess vegna teljum við hana frekar eiga heima undir landbúnaðarráðuneytinu en umhverfisráðuneytinu. Okkur finnst rétt að allar búgreinarnar eigi heima á sama stað.

Það er stutt í að skógrækt og úrvinnsla verði stór atvinnugrein, til dæmis á Fljótsdalshéraði. Skógurinn er orðin það stór og þroskaður að það er orðin mikil vinna að sinna honum auk þess sem afurðir eru farnar að koma úr honum,“ segir Maríanna.

Skógarbændur hafa á stundum skotið á umhverfisráðherra en Maríanna segir það engin áhrif hafa á afstöðuna nú. „Þetta er ekki í neinum illindum. Okkur finnst skógræktin einfaldlega passa betur með öðrum búgreinum.“

Hún segir að skiptar skoðanir sé um þetta skref innan skógabænda, eins og afgreiðsla landssambandsins frá því fyrir tveimur árum ber með sér. Eins eru skiptar skoðanir á því hvort rétt sé að skógabændur verði aðilar að Bændasamtökum Íslands. „Það hefur komið til umræðu og við höfum stutt það. Sumir eru hrifnir af þessu, aðrir ekki.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.