Vilja áætlun um húsnæði Djúpavogsskóla

Starfshópur um húsnæðismál Djúpavogsskóla leggur til að fyrir árslok verði tilbúin áætlun um framtíðarlausnir á húsnæði skólans sem er of lítið.


Hópurinn skilaði tillögum sínum á fundi hreppsnefndar í síðustu viku. Þær skiptast upp í fjóra hluta.

Í fyrsta lagi að fallið verði frá því að flytja fimm ára börn af leikskólanum í grunnskólann í haust. Í öðru lagi að ekki verði fleiri en 37 börn í leikskólanum og allt kapp lagt á að fá dagforeldra fyrir þau börn sem ekki fá leikskólapláss.

Í þriðja lagi á að gera heildstæða áætlun sem byggir á þarfagreiningu hópsins um framtíðarlausn. Hún gerir ráð fyrir að öll starfsemi skólans fari í eigið húsnæði og leikskólinn verði þrjár deildir.

Þessi áætlun á að vera klár fyrir lok árs. Í fjórða lagi á að senda þarfagreininguna til fagaðila.

Djúpavogsskóli samanstendur af tón-, leik- og grunnskóla. Þeir voru sameinaðir í eina stofnun árið 2011 en eru reknir í fjórum byggingum.

Leikskólinn telst fullsetinn þegar tuttugu börn á eru á eldri deild og fimmtán á yngri deild. Í dag eru tuttugu og fimm börn á eldri deildinni og ekki útlit fyrir fækkun næstu fjögur árin.

Yngri deildin er fullsetin og heldur útlit fyrir að þar fjölgi næstu tvo vetur en fimmtán börn fæddust í sveitarfélaginu á síðasta ári.

Tónskólinn hefur verið í leiguhúsnæði og öllum hans eigum verið pakkað saman á vorin. Þótt grunnskólinn teljist kannski ekki sprunginn sé mjög þröngt um starfsemina þar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.