Vilhjálmur Árnason: IceSave skaðvaldur í íslenskum stjórnmálum

Vilhjálmur Árnason, formaður stjórnar Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands segir að Íslendinga enn vera að læra af hruninu átta árum síðar. Vísbendingar séu um að lærdómurinn sé dreginn seinna í stjórnmálunum en annars staðar í þjóðfélaginu.


Vilhjálmur, sem er uppalinn Norðfirðingur, var einn af þeim sem kom að því að skrifa Skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis en þrír siðfræðingar voru þar kallaðir til. Hann segir það hafa verið „merkilegt viðfangsefni“ og hælir Alþingi fyrir að kalla siðfræðinga að vinnunni.

„Yfirleitt eru eingöngu hagfræðingar og lögfræðingar kallaðir að svona skýrslum í öðrum löndum en ég held að íslenskur almenningur hafi upplifað þetta sem siðferðilegt áfall.“

Í viðtali í nýjasta tölublaði Austurgluggans lýsir hann vinnunni sem erfiðri en áhugaverðri. Vinna hafi þurft úr miklu magni gagna og það hafi tekið á. Eftir standi mikilsverð gögn fyrir fræðimenn framtíðarinnar.

„Við kynninguna breyttist allt“

Þótt miklir hagsmunir væru í húfi segist Vilhjálmur ekki hafa orðið fyrir þrýstingi meðan á vinnunni stóð. Skýrslunni var síðan vel tekið þegar hún kom út.

„Maður veit að vinnan hjó nærri mörgum persónum og fjölskyldum í þessu litla samfélagi og það var erfitt að vita til þess. Það voru dæmi um að við fengjum athugasemdir eftir að skýrslan kom út en það var mjög lítið um það. Skiljanlega sárnaði einhverjum.

Ég held að framsetningin hafi komið mönnum á óvart, með beinum tilvitnunum á spássíu. Þegar menn komu í skýrslutökuna áttu þeir sennilega frekar von á hefðbundnari uppsetningu.

Vissulega var tortryggni gagnvart nefndinni á meðan vinnunni stóð enda traustið hrunið í samfélaginu. Ég man eftir því þegar við gengum frá Alþingishúsinu yfir í Iðnó, daginn sem skýrslan var kynnt, að það var hrópað að okkur: „Nú hefst hvítþvotturinn!“ Við kynninguna gerbreyttist allt. Fólki fannst að þarna hafi verið vel að verki staðið og skýrslan væri trúverðug.“

Ekki langur tími í lærdómssögu þjóðar

Annað slagið koma samt upp mál þar sem við spyrjum okkur hvað þjóðin, eða ákveðnar stéttir, hafi lært af skýrslunni sem kom út fyrir rúmum sex árum.„Ég hef verið spurður að þessu áður og yfirleitt svara ég að of snemmt sé að fullyrða eitthvað um þetta. Þótt þessi tími sé liðinn er hann ekki langur í lærdómssögu þjóðar. 

Menn eru oft býsna fljótir að dæma út frá einstökum dæmum, svo sem bónusunum nýlega. Menn geta alltaf átt von á að alls konar hlutir gerist en spurningin er frekar hvernig við bregðumst við í samfélaginu? Við höfum þegar heilmiklar vísbendingar um að við höfum lært. Í dag er meiri viðleitni en áður til að upplýsa málin og veita aðhald.

Það voru hins vegar viss vonbrigði að tveimur dögum eftir útgáfu skýrslunnar byrjaði gos í Eyjafjallajökli og tók alla athyglina. Hún er samt enn viðmið, þegar tekist er á um þjóðfélagsmál er vísað í hana.“

Mistök að hafna IceSave aftur?

Vilhjálmur viðurkennir hins vegar að þótt almenningur og ýmsar stofnanir hafi lært virðist hlutirnir síast síðar inn í stjórnmálin.

„Manni finnst þau sitja eftir í þessu lærdómsferli. Ég hef nokkuð sérstaka sýn á IceSave og tel það mál hafa verið mikinn skaðvald. Sjaldan hafa sést betri vinnubrögð í þinginu en í kjölfar þess að fyrri samningunum var hafnað. Kallaðir voru til færustu sérfræðingar og um niðurstöðuna myndaðist breið pólitísk sátt.

Samt hafnaði forsetinn samningunum aftur og það held ég að hafi verið mistök. Þar með fóru þau vinnubrögð sem voru farin að mótast í þinginu í uppnám og við höfum eiginlega ekki beðið þess bætur síðan. Ég held að upp til hópa sé ágætis fólk á þingi en það er eitthvað við stjórnsiðina eða menninguna sem gerir það að verkum að það verða ekki miklar framfarir í stjórnmálunum.

Kappræðustjórnmálin eru umtalsefni í skýrslunni og ég held að eitt af því sem færir Pírötum athygli, þótt ekki séu allir vissir um fyrir hvað þeir standa, þá standa þeir fyrir þá afstöðu að ekki skipti máli hvaðan góð hugmynd kemur, hana eigi að ræða málefnalega. Það er sú samræðumenning sem almenningur vill fá því hann er orðinn þreyttur á karpinu.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.