Vilhjálmur Árnason: Ekki bannað með lögum að ljúga

Gera á ríkari kröfur til stjórnmálamanna en almennra borgara að ganga á undan með góðu fordæmi í að breyta réttar en eingöngu að fara eftir rituðum lögum. Almenningi svíður að sjá ákveðna hópa ekki leggja til samfélagsins eins og þeir ættu að gera.


Þetta segir Vilhjálmur Árnason, formaður stjórnar Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands í viðtali í síðasta tölublaði Austurgluggans.

„Lögin byggja á siðferðinu en ná þó einungis yfir afmarkað svið mannlegrar hegðunar, það er þess sem varðar við lög. Það er villandi og varasamt að leggja ranga breytni að jöfnu við saknæmt athæfi.

Þetta er hluti af hversdagslegri siðferðisvitund fólks og við fellum oft á dag siðadóma sem hafa ekkert með lög að gera. Við metum til dæmis framferði tillitslaust, óheiðarlegt eða óábyrgt og skiljum flest hver hvað við er átt án þess að vísa til laga. Það er ekki bannað með lögum að ljúga.

Ef stjórnmálamenn eða borgarar gerðu aldrei meira en lögin gera ráð fyrir þá byggju menn annaðhvort við einhvers konar lágmarkssiðferði eða gríðarlega smásmyglislega lagasmíð. Hvorugt myndi stuðla að góðu mannlífi.

Það er líka full ástæða til þess að gera ríkari kröfur til stjórnmálamanna en annarra borgara í þessu tilliti því þeir eiga að ganga á undan með góðu fordæmi sem gæslumenn almannahagsmuna. Því hlutverki fylgja siðferðilegar skyldur og ábyrgð sem aldrei verða fyllilega útlistaðar með lögum.“

Málið snýst um trúverðugleika og traust

Vilhjálmur, sem er uppalinn Norðfirðingur og kom að ritun Skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, var þar spurður út í mál Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar, fyrrverandi forsætisráðherra en hann hafði verið með prókúru á félagi eiginkonu sinnar sem vistað var í skattaparadís og eignaðist síðan kröfu á föllnu bankana.

„Málið snýst ekki um að lög hafi verið brotin heldur varðar það trúverðugleika og traust. Ég held að það hafi verið aðalástæðan fyrir þessum sterku viðbrögðum. Stjórnmálamenn fara með almannafé og vinna að þessum innviðum sem fjármagnaðir eru með skattfé. Þess vegna eiga þeir að vera til fyrirmyndar í hvernig þeir fara með fjármunina.

Það er hægt að taka undir að Sigmundur Davíð hafi staðið sig ágætlega gagnvart kröfuhöfum en borgarar og kjósendur þessa lands eiga rétt á að vita í hvaða stöðu hann var.“

Almenningi svíður að ekki sé lagt til samfélagsins

Í nýlegri grein skrifaði Vilhjálmur að gjá hafi myndast milli almennings og auðmanna. Þar á hann við að vissum hópum standi til boða önnur kjör í fjármálum sínum en almenningi.

„Þessi gjá birtist til dæmis í yfirgengilegu framferði bankamanna fyrir hrun. Hún birtist líka þegar Panamaskjölin afhjúpuðu hópa sem flytja fjármuni úr landi til að leyna eignarhaldi og komast undan venjulegum skattgreiðslum.

Fólki svíður að slíkir hópar leggja ekki til samfélagsins eins og þeir ættu að gera, en ég held að það eigi ekki við um neina tiltekna stétt.“

Vilhjálmur sagði viðbrögð Sigmundar Davíðs við viðtali sænskra blaðamanna þar sem hann var spurður út í Wintris, fyrrnefnd félag konu hans, hafa kostað hann forsætisráðherrastólinn.

„Hví tók hann ekki frumkvæðið frekar en lenda í þessari ómögulegu stöðu að hrekjast úr einu víginu í annað, neita að tala við fjölmiðla og kenna þeim um málið. Þannig gróf hann sína eigin gröf.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.