„Við viljum gera vel við barnafjölskyldur“

„Við ákváðum að lækka þessa vöruflokka, því ef á að gera vel við einhverja þá eru það barnafjölskyldur,“ segir Nikulás Árnason, rekstrarstjóri verslunarinnar Kauptúns á Vopnafirði, en verslunin hefur stórlækkað verð á barnavörum.



Verslunin Kauptún á Vopnafirði sendi frá sér svohljóðandi stöðufærslu á Facebooksíðu sinni í gær; Vegna stóraukinnar frjósemi á Vopnafirði hefur Kauptún ákveðið að styðja vel við barnafjölskyldur og stórlækka verð á barnavörum eins og bleyjum og barnamat.

Nikulás segir að verslunin hafi ákveðið að bregðast við jákvæðri þróun í samfélaginu, en ungum börnum er að fjölga á staðnum, bæði eru barnafjölskyldur að flytja á staðinn auk þess sem nokkur börn eru á leiðinni í heiminn á Vopnafirði.

„Við ákváðum að lækka verðið á þessum vöruflokkum í stað þess að lækka kex eða sælgæti, það eru þessar vörur sem skipta máli fyrir heimilsbókhaldið hjá barnafólki og við munum selja þær á kostnaðarverði.“

Aðspurður hvort verið sé að bregðast við komu Costco segir hann það ekki vera. „Ég held að það skipti ekki máli í stóra samhenginu, Vopnfirðingar eru ekki að rúnta mörghundruð kílómetra til þess að kaupa bleyjur. Við viljum bara leggja okkar að mörkum til þess að gera vel við barnafjölskyldur og halda því á staðnum. Þetta verð er komið til að vera, ekki aðeins sumarsprengja.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.