„Versta mögulega útkoman“

Töluverðar skemmdir urðu á kirkjugarðinum á Reyðarfirði í óveðrinu sem gekk yfir aðfaranótt mánudags, þegar lögreglustöð sem er hluti af leikmynd Fortitude, splundraðist og dreifðist yfir garðinn.



Lögreglustöðin hefur staðið upp á melnum, við hlið kirkjugarðsins, síðan í desember.

„Tökum er að mestu lokið á þessu svæði, en við vildum eiga möguleikann á því að halda þeim áfram eftir páska og þess vegna stóð stöðin ennþá. Tjónið er því aðeins fjárhagslegt fyrir okkur en setti ekki strik í reikninginn varðandi tökur,“ segir Pétur Ottesen, framkvæmdastjóri smíðadeildar Pegasus.

Krossar og merkingar á fimm leiðum skemmdust auk þess sem fánastöng garðsins brotnaði.

„Þó svo að þetta sé að sjálfsögðu tjón sem kemur við okkur er það ekki það sem skiptir máli, heldur erum við miður okkar að þetta hafi valdið skemmdum í kirkjugarðinum, en það var versta mögulega útkoman og við gerum okkur fulla grein fyrir því að þetta kemur illa við aðstandendur.“

Búið er að þrífa svæðið, panta fánastöng og smíða nýja krossa.

„Það fyrsta sem við gerðum eftir rokið var að hafa samband við formann sóknarnefndar og umsjónarmann kirkjugarðanna. Við munum á næstu dögum setja okkur í samband við aðstandendur og biðjast afsökunar á tjóninu, en í mínum huga skiptir það mestu máli í þessu öllu,“ segir Pétur.

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.