Verkmenntaskólinn settur undir berum himni

Skólasetning Verkmenntaskóla Austurlands á mánudag var haldin utan dyra. Hefð fyrir því hefur myndast undanfarin ár. Skólameistari segist ánægður með aðsókn í verknámið í skólanum.


„Þetta var fimmta skólasetningin mín og sú fjórða undir berum himni. Mér er ekki kunnugt að það hafi verið gert fyrir minn tíma,“ segir Elvar Jónsson, skólameistari VA.

„Annars vegar gerum við þetta til að nota góða veðrið en hins vegar er ekki nógu góð aðstaða í skólanum til að halda svona viðburði. Ef við ætlum að koma öllum nemendum og starfsfólki saman þurfum við íþróttahúsið, enda höfum við gjarnan verið þar.“

Í setningarræðu sinni bauð Elvar nýja nemendur við skólann velkomna um leið og hann minnti á að stórt stökk væri milli grunn- og framhaldsskóla. Þeir þyrftu því tíma til að aðlagast nýju skólaumhverfi.

Þá talaði Elvar um að skólinn væri samfélag þar sem allir hlekkirnir væru jafn mikilvægir og nauðsynlegt að allir standi saman til að keðjan haldi. Umburðarlyndi, kurteisi og að öllum líði vel í skólanum skipti mestu máli í skólastarfinu.

Á haustönn eru 213 nemendur skráðir í skólann. Elvar segir það nokkuð færri en undanfarin ár. Fækkunin er einkum bundin við bóknámsbrautir sem kenndar eru til stúdentsprófs en það hefur verið stytt úr fjórum árum í þrjú.

Hann er hins vegar ánægður með aðsóknina í verknámið. „Við erum með nýja hópa í öllum verknámsdeildum á fyrstu önninni. Við höfum verið í þeirri stöðu að geta ekki farið í gang með nýja hópa.

Við finnum ákveðinn meðbyr og tökum eftir því undanfarin ár að stúlkur koma meira inn í ákveðnar deildir.“

Frá skólasetningunni á mánudag. Mynd: Verkmenntaskóli Austurlands


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.