Verkmenntaskólinn dregur sig út úr söngkeppninni: Óraunhæfur kostnaður fyrir félagið

Nemendafélag Verkmenntaskóla Austurlands (NIVA) hefur ákveðið að taka ekki þátt í söngkeppni framhaldsskólanna í ár í mótmælaskyni við breytt fyrirkomulag keppninnar. Nemendafélag Menntaskólans á Egilsstöðum (NME) sendir sinn fulltrúa suður.


„Það er óraunhæft fyrir lítið nemendafélag eins og okkar að 10% af heildarfélagsgjöldum okkar fari í að senda inn lag bara til að einhver dómnefnd hlusti á það,“ segir Sigurður Ingvi Gunnþórsson, formaður NIVA.

NIVA sendi auk nemendafélaga framhaldsskólanna á Laugum, Tröllaskaga og í Austur-Skaftafellssýslu frá sér tilkynningu fyrir helgi þar sem tilkynnt er að skólarnir ætli ekki að taka þátt í ár en áður höfðu nemendafélög beggja skólanna á Akureyri gert slíkt hið sama.

Skólarnir mótmæla því að hver skóli þurfi að greiða 40.000 krónur fyrir að senda inn upptöku auk þess að fá aðgang að æfingahelgi í Reykjavík. Sigurður Ingvi bendir á að NIVA eigi þá enn eftir að leggja aukakostnað í að koma keppanda sínum suður til æfinga.

Tólf skólar verða síðan valdir áfram í aðalkeppnina og þurfa þeir að borga 30.000 krónur aukalega í þátttökugjald og skuldbinda sig til að selja 20 miða á keppnina. Forsvarsmenn nemendafélaganna segja þennan kostnað þungan fyrir lítinn nemendafélög auk þess sem skólum sé mismunað eftir landfræðilegri staðsetningu. Eins lýsa þeir óánægju sinni með að aðeins tólf keppendur fái tækifæri til að koma fram í sjónvarpi.

„Við höfum ekki reiknað nákvæmlega út hver kostnaðurinn verður en við vitum að hann er mikill,“ segir Sigurður Ingvi.

Hugmyndir hafa verið ræddar um að halda sérstaka landsbyggðarkeppni á Akureyri. „Ef það verður keppni á Akureyri þá erum við vel til í að skoða hana. Það er takmarkað vitað um hana enn en við erum búin með okkar undankeppni þannig það er leiðinlegt ef við fáum ekkert í staðinn fyrir keppnina í Reykjavík.“

Rebekka Karlsdóttir, formaður NME, sagði í samtali við Austurfrétt að stjórn nemendafélagsins hafi í samráði við keppanda skólans ákveðið að taka þátt í keppninni fyrir sunnan. Margt hafi verið spennandi við hugmyndina um keppnina á Akureyri en þetta hafi orðið niðurstaðan að þessu sinni að vel athuguðu máli.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.