„Verkfallið lamar allt hérna“

Verkfall sjómanna er farið að hafa veruleg áhrif á tekjur sjávarútvegssveitarfélaga. Tugi milljóna vantar í kassann hjá Vopnafjarðarhrepp og útlit er fyrir að fresta þurfi framkvæmdum.


„Þetta lamar allt hérna. Verkstæðin, veitingastaðina, þjónustufyrirtækin. Ég hef hitt menn sem eru dottnir niður í laun sem eru brot af því sem þeir hafa vanalega,“ segir Ólafur Áki Ragnarsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps í nýjasta tölublaði Austurgluggans.

Mörg sveitarfélög treysta á tekjur í formi útsvars launa og löndunargjöld. Þá er fjöldi fyrirtækja í landi sem byggir starfsemi sína á þjónustu við sjávarútveginn. Þarna hefur verið höggvið skarð.

„Þetta hefur gríðarleg áhrif á skatttekjur sveitarfélagsins, svo ég tali ekki um hafnarsjóð og við höfum stórar áhyggjur af stöðunni ef deilan fer ekki að leysast.“

Ljóst sé að tekjumissir hafnarsjóðs sé yfir 50 milljónir króna. Þá er ótalið tap af útsvarinu. Lök loðnuvertíð hafði töluverð áhrif á Vopnafirði í fyrra og þurfti sveitarfélagið að taka lán til að standa undir hafnarframkvæmdum sem það hafði skuldbundið sig til.

Þurfa að fresta framkvæmdum

Á árinu eru áætlaðar framkvæmdir fyrir 60 milljónir króna og segir Ólafur Áki þegar orðið ljóst að endurskoða þurfi einhverjar þeirra. Meira svigrúm sé til þess nú þar sem þær séu ekki ætlaðar fyrr en í sumar.

Til að mæta loðnubrestinum í fyrra var ráðist í uppbyggingu bolfiskvinnslu á vegum HB Granda. Hún var tilbúin fyrir jól en hefur staðið ónotuð.

Ólafur Áki hefur áhyggjur af því að los komist á fólk því atvinna sé í boði annars staðar á landinu auk þess sem verkleysið hafi áhrif á andlega líðan. „Það er einfaldlega þannig að Vopnafjörður er háður vinnslunni hjá HB Granda.“

Hefur áhrif á samfélagið allt

Á mánudag samþykkti bæjarráð Fjarðabyggðar ályktun þar sem lýst var yfir þungum áhyggjum vegna þeirrar stöðu sem upp sé komin í samfélaginu vegna verkfallsins. Ljóst sé að það sé farið að hafa veruleg áhrif á samkomulagið allt.

„Það gefur auga leið að þegar engu er landað og ekkert er unnið vikum saman skerðast tekjustofnar sveitarfélaga. Ég er hræddur um að menn sjái þess víða merki í útsvari að sjómenn eru ekki á sjó og ekki verið að þjónusta flotann. Það er ýmis þjónusta í landi við útgerðina og þegar hún er í lamasessi smitar það út frá sér,“ segir Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri á Djúpavogi og formaður Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.