Verkfall Eflingar hefur áhrif á Austfirðinga

Ruslageymslum í íbúðum AFLs Starfsgreinafélags í Stakkholti í Reykjavík hefur verið læst þar sem ótímabundið verkfall félagsfólks í Eflingu, þar með talið sorphirðufólks, hófst á miðnætti. Framkvæmdastjóri AFLs segir umgengni fólks á svæðinu ráða því hve lengi verði hægt að halda íbúðunum opnum.

Ótímabundin vinnustöðvun starfsmanna Eflingar stéttarfélags hjá Reykjavíkurborg hófst á miðnætti. Verkfallið kann að hafa áhrif á þá sem dveljast í íbúðum AFLs en ekki verður hægt að halda þeim opnum ef ekki verður vel gengið um sorpgeymslur fjölbýlishúsanna og það hvorki skilið eftir á göngum né í bílageymslu.

„Við styðjum við verkfall Eflingar. Þess vegna kemur ekki til greina að ganga í störf félagsmanna,“ segir Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs.

Á heimasíðu félagsins kemur fram að búið sé að læsa ruslageymslum og láta þá sem dveljast í íbúðunum vita. Sverrir segir það fyrirbyggjandi aðgerðir að læsa geymslunum til að koma í veg fyrir að þar verði óþefur eða umgangur meindýra. „Það veltur á umgengni hve lengi við getum haft íbúðirnar opnar.“

Sverrir að erfitt yrði að grípa til slíkra aðgerða sem myndu bitna verst á félagsmönnum sem farið hafa suður til að leita sér læknisaðstoðar. Hann útilokar ekki að fólk í slíkum aðstæðum fengi undanþágur en það yrði ekki gert með þeim hætti að gengið yrði í störf félagsfólks Eflingar.

Félagar í AFLi samþykktu í byrjun síðustu viku samnings sem Starfsgreinasambandið gerði fyrir þess hönd við sveitarfélögin. Um þriðjungur þeirra sem voru á kjörskrá greiddu atkvæði af þeim sögðu tæp 77% já en 17,6% nei. Það var í takt við önnur aðildarfélög Starfsgreinasambandsins. Skömmu fyrir undirritun samningsins klauf Efling sig hins vegar út úr samfloti aðildarfélaganna sem er grunnurinn að deilu þess við borgina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.