Verið að finna fólki næturstað á Seyðisfirði

Aðalheiður Borgþórsdóttir, fulltrúi sveitarstjóra Múlaþings á Seyðisfirði, segir Seyðfirðinga búa við óvissu eftir að aurskriður féll úr hlíðum við bæinn sunnanverðan bæinn og niður í byggð. Hún kveðst ekki muna eftir viðlíka rigningartíð þar í desember eins og verið hefur síðustu daga.

„Ég man ekki eftir svona rigningum í desember og hef þó séð ýmislegt. Það eru eiginlega stöðuvötn út um allan bæ. Til viðbótar er sjávarstaða há og það hefur örugglega farið vatn víða inn í kjallara,“ segir Aðalheiður en rignt hefur nær sleitulaust í bænum síðan á fimmtudag.

Þegar Austurfrétt ræddi við Aðalheiði var hún stödd í félagsheimilinu Herðubreið þar sem opnuð hefur verið fjöldahjálparstöð. Hús voru rýmd við þrjár götur í bænum eftir aurskriðurnar tvær í dag, eða á svæðinu frá Búðará inn að Dagmálalæk.

„Við erum að rýma hús og koma fólki hingað inn. Það er mikil óvissa núna. Við erum að finna út hvar fólk getur gist.“

Önnur skriðan féll við götuna Botnahlíð en hin kom niður á Austurvegi og lenti á húsinu sem hýsir menningarmiðstöðina Skaftfell. Erfitt hefur verið að meta umfang aurflóðanna því myrkur skall á nánast strax í kjölfar þeirra.

Gatan við Skaftfell er lokuð og eftir því sem Austurfrétt kemst næst liggur á henni þykkt lag, upp undir hálfur metri.

„Sú sem fer á Skaftfell kemur úr Naustaklauf og virðist stór. Hún hefur örugglega farið á 2-3 hús í leiðinni. Hún nær alveg að sjoppunni. Þetta er samt erfitt að sjá, það er mikið myrkur og mikil rigning,“ segir Aðalheiður.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.