„Verðum klár þegar bóluefnið kemur“

Hjá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) stendur nú yfir undirbúningur fyrir að gefa Austfirðingum bólefni við Covid-19 veirunni. Margt er þó enn ófráfengið því meðal annars er ekki staðfest hvaða bóluefni verður notað.

„Það er töluverð óvissa enn því ekki er ljóst hvaða bólefni verður valið. En óháð því þá verðum við tilbúin þegar bóluefnið kemur og byrjum þá strax,“ segir Guðjón Hauksson, forstjóri HSA.

„Við erum að fara yfir mál eins og hvar eigi að bólusetja, með hvaða hætti og hvaða starfsmenn geri það. Við erum að búa til bólusetningarteymi með fagfólki úr heilbrigðisþjónustunni hjá okkur. Þetta gerðum við í samvinnu við aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands og sóttvarnayfirvöld á landsvísu. Þau sjá um verkefnið þótt við útfærum það. Við erum því að gera það sama og aðrar heilbrigðisstofnanir hringinn í kringum landið.“

Prófanir liggja fyrir á þremur bóluefnum og hafa Íslendingar tryggt sér aðgang að þeim í gegnum Evrópusamninga en enn liggja ekki fyrir endanleg leyfi fyrir notkun efnanna. Ein áskorunin verður væntanlega flutningur bóluefnanna, en sum þurfa að geymast í grimmdarfrosti.

Útlit er fyrir að byrjað verði að bólusetja strax í desember í Bandaríkjunum en Þjóðverjar hafa gefið til kynna að þar verði hafist handa um miðjan desember. Hérlendis hefur komið fram á upplýsingafundum almannavarna að útlit sé fyrir að hægt verði að byrja í janúar. Á föstudag tilkynnti heilbrigðisráðherra um skiptingu í forgangshópa í bólusetninguna.

Í tilkynningu ráðherra segir líklegt að fleiri en ein tegund bóluefnis verði notuð hérlendis og taki meðal annars mið af því hvernig hver hentar hvaða hóp. Sóttvarnalæknir ber ábyrgð á skipulagningu og samræmingu bólusetningar. „Sóttvarnayfirvöld útdeila skömmtun. Við fáum ákveðið magn og lista yfir forgangshópinn,“ segir Guðjón.

Samkvæmt nýjustu tölum af Covid.is er enginn í sóttkví á Austurlandi né með virkt smit. Austurland og Norðurland vestra eru einu landshlutarnir sem geta státað af slíkri stöðu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar