Vel yfir 200 undirskriftir komnar á Seyðisfirði

Vel yfir 200 íbúar á Seyðisfirði hafa ritað undir áskorun um að hætt verði við áform um laxeldi í firðinum. Skoðanakönnun á netinu sýnir einnig að stór hluti íbúa Seyðisfjarðar er andvígur laxeldinu.

Þóra Bergný Guðmundsdóttir íbúi á Seyðiafirði hefur verið í forsvari fyrir þá sem safna undirskriftunum. Hún segir að þátttakan hafi verið mun meiri en fólk átti von á.

„Söfnunin er enn í fullum gangi hjá okkur þannig að fleiri nöfn eiga vonandi eftir að bætast við.“ segir Þóra. „En það er mikil stemming í bænum gegn þessum áformum um laxeldi í Seyðisfirði.“

Undirskriftarlistar hafa legið frammi í bænum undanfarna daga á Skaftfelli og í kaupfélaginu. Þar að auki hefur fólk gengið í hús með undirskriftalista.

„Ég hringdi í einn íbúa í hverri götu og margir þeirra fengu lista til að ganga með í götunni sinni,“ segir Þóra Bergný.

Þá má nefna að skoðanakönnun hefur verið í gangi á lokaðri spjallsíðu fyrir Seyðisfirðinga á Facebook. Um helgina voru yfir 100 búnir að tjá skoðun sína á laxeldinu. Fjórir svarmöguleikar eru í boði eftir hve fólk er hart með eða á móti eða þar á milli. Yfir helmingur svarenda er alfarið á móti laxeldinu en ekki nema tugur sem er alfarið með eldinu.

Aðspurð um hvað gert verður við listann og hver fær hann afhentan segir Þóra Bergný að það verði rætt í vikunni. Fyrst verði undirskriftaherferðin kláruð og síðan fundað um hverjum og hvernig listinn verður afhentur. „Kannski fer afhendingin fram rafrænt vegna COVID,“ segir Þóra Bergný.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.