Veitustofnanir í Múlaþingi sameinaðar inn í HEF

Sveitarstjórn Múlaþings hefur samþykkt að allar veitustofnanir Borgarfjarðarhrepps, Seyðisfjarðarkaupstaðar og Djúpavogshrepps verði sameinaðar og færðar undir Hitaveitu Egilsstaða og Fella ehf. (HEF).

Þetta var staðfest á fyrsta fundi sveitarstjórnarinnar fyrir viku. Um er að ræða vatnsveitur og fráveitur sveitarfélaganna þriggja ásamt hitaveitu Djúpavogshrepps. Þær hafa verið reknar undir B-hluta sveitarfélaganna. Á Fljótsdalshéraði hafa hins vegar allar veiturnar tilheyrt HEF ehf. frá árinu 2011.

Gengið er út frá að yfirfærslan hafi tekið gildi 1. október síðastliðinn og við hana er miðað við bókfært verð eigna og skulda veitnanna í lok september. Það eigið fé sem færist til HEF við yfirfærsluna færist til hækkunar á hlutafé í HEF en innri viðskiptastöður, það er kröfur og skuldir við tengda aðila, færast ekki á milli.

„Þar sem við stöndum frammi fyrir því að einstakar veitur séu í skuld við sveitasjóð þá verða slíkar skuldir afskrifaðar og ekki færðar til HEF heldur heildaráhrifum á eigið fé mætt með aukningu hlutafjár. Þannig verða ekki bundnar skuldbindingar milli HEF annars vegar og sveitasjóðs hins vegar,“ útskýrði Björn Ingimarsson, sveitarstjóri.

Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokks, sagði að sér hefði borist nokkuð af fyrirspurnum um hvers vegna væri kosið að hafa veiturnar frekar í einkahlutafélagi heldur en undir sveitasjóði og hve nákvæmlega fjárhagslegt hagræði af ólíkum kostum hefði verið skoðað.

Björn svaraði að mögulegar leiðir hefðu verið skoðaðar ítarlega, bæði af nefnd um sameiningu sveitarfélaganna og svo af endurskoðunarfyrirtækinu KPMG. Framan af í ferlinu hefði nefndin hallast að því að skynsamlegast væri að hafa veiturnar undir B-hluta sveitarsjóðs en bakkað með það eftir ráðgjöf sérfræðinga KPMG og verið algjörlega sammála í lokin.

„Eftir að hafa farið yfir þetta með endurskoðendum og skoðað útfærslu annarra sveitarfélaga, þar sem farnar hafa verið svipaðar leiðir, var það niðurstaðan að langskynsamlegast væri að færa veiturnar inn í einkahlutafélagið frekar en gera upp félagið og allt sem inni í því væri.“

Yfirfærslan felur það í sér að eignir og rekstur veitnanna færist til HEF en ekki endilega starfsmenn. „Við gerum ráð fyrir að sveitarfélagið, starfsfólk áhaldahúsa, þjónustumiðstöðva, og fleiri, sinni þjónustu sem seld er til HEF,“ sagði Björn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.