Veiðifélag Breiðdæla varar við áformum um laxeldi

Veiðifélag Breiðdæla varar við alvarlegum, óafturkræfum umhverfisáhrifum sem hljótast muni af áformuðu laxeldi á Austfjörðum og biður um að náttúran verði græðginni ekki að bráð.

Þetta kemur fram í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi félagsins í gærkvöldi. Fiskeldi Austfjarða hf. auglýsti í byrjun árs framleiðsluaukningu á laxi í Mjóafirði og Norðjarðarflóa, Seyðisfirði og Stöðvafirði. Um er að ræða allt að 10.000 tonna aukningu á framleiðslu á hverjum stað.

Í ályktun Veiðifélagsins segir að úrgangur frá svo umfangsmiklu laxeldi myndi ógna lífríkinu á stórum svæðum umhverfis kvíarnar með óafturkræfum afleiðingum og að óumflýjanlegt sé að ákveðinn hluti fiska sleppi úr eldinu ár hvert sem sé ógn við íslenska laxastofninn og muni jafnvel ganga að honum dauðum.

Veiðifélagið varar við áhrifum af því að kynbreyttur lax sleppi út í villta náttúru og vísar til þess að í Noregi séu yfir 100 laxveiðiár ónýtar vegna sjókvíaeldis. Fullyrt er að reynslan af laxeldi fiskeldisins í Berufirði staðfesti að „mikið magn af regnbogasilungi sleppi eftirlitslaust í sjóinn og án þess að nokkur gangist við ábyrgð á því.”

Veiðifélagið gagnrýnir veikt lagaumhverfi og eftirlit með fiskeldi auk þess sem útlendir aðilar fái að nýta sjó í íslenskum fjörðum endurgjaldslaust. Þá segir félagið þingimenn og umhverfisverndarsamtök „sofa værum blundi og láta sér í léttu rúmi liggja aðför að lífríki náttúrunnar með risalaxeldi í íslenskum sjó.

Veiðifélag Breiðdæla varar alvarlega við þessum áformum öllum og biður um að náttúran til lands og sjávar verði græðginni ekki að bráð.”

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.