Vegir áfram lokaðir

Útlit er fyrir að helstu leiðir út frá Austurlandi sem og fjallvegir í fjórðungnum verði lokaðir áfram fram til kvölds. Stöðugleiki er að komast á rafmagn í fjórðungnum. Vindmælir í Hamarsfirði virðist hafa gefið upp öndina í átökunum í morgun.

Samkvæmt tilkynningu frá lögreglu er gert ráð fyrir að helstu vegir verði lokaðir áfram og ítrekað er fyrir vegfarendum að leggja ekki í tvísýnu. Lokað er frá Djúpavogi til suðurs, um Möðrudalsöræfi, Vopnafjarðarheiði, Vatnsskarð, Fjarðarheiði og Fagradal.

Rafmagn fór af nær öllum fjórðungnum upp úr klukkan tíu í morgun en var komið á víðast um klukkan eitt. Flökt hefur verið á rafmagninu enda raforkukerfi laskað eftir óveðrið í dag og í gær.

Álagi hefur verið stýrt á Reyðarfirði sem hefur þýtt að sum hverfi hafa verið með rafmagn og önnur ekki.

Í Breiðdal fór rafmagnið ekki af fyrr en um klukkan eitt, eða um það leiti sem það komst á annars staðar en komst á aftur um klukkan hálf þrjú. Breiðdælingar heyrðu þannig í útvarpstækjum sínum í morgun að rafmagnslaust væri á öllu Austurlandi.

Samkvæmt upplýsingum frá Rarik er stöðugleiki að komast á raforkukerfið eystra. Þó er ekki bitið úr nálinni með að það haldist, veðurspár gera ráð fyrir aukinni úrkomu sem eykur hættu á ísingu.

Rétt eftir klukkan 11 í morgun mældist vindhviða upp á 52,1 m/s á mæli í Hamarsfirði. Hviðan virðist hafa gert út af við mælinn sem síðan hefur sýnt logn.

Veðurstofan telur töluverða snjóflóðahættu á Austurlandi, í fjalllendi á Fljótsdalshéraði og Austfjörðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar