Varað við rigningu í kvöld: Ekkert sem innfæddir Austfirðingar eiga ekki að venjast

Veðurstofan varar við úrkomu á Austfjörðum í kvöld og stormi í fyrramálið. Enn á eftir að bæta í þá rigningu sem verið hefur í dag en mest úrkoman ætti að ganga hratt yfir.


„Þessum viðvörunum er sérstaklega beint til ferðamanna sem eru óvanir þessu veðri. Þetta er ekkert sem innfæddist Austfirðingar eiga ekki að venjast,“ sagði veðurfræðingur á vakt í samtali við Austurfrétt um klukkan fimm.

Þá var sólarhringsúrkoman á Fáskrúðsfirði, Norðfirði og Dalatanga komin upp í 20 mm. Búist er við að hún eigi eftir að tvöfaldast. Úrkomubeltið nær frá Öræfajökli, yfir Suðausturland og norður um Hérað og Seyðisfjörð.

Von er á að aðalúrkomubakkinn fari hratt yfir og dragi úr rigningunni í kvöld.

Þá er varað við hvassri sunnanátt í fyrramálið, sérstaklega á annesjum. Stormurinn gengur hins vegar hratt niður og veðrið ætti að vera orðið nokkuð skaplegt um hádegi á morgun.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.