Varað við hættu á skriðuföllum á Austfjörðum

Veðurstofa Íslands varar við hættu á skriðuföllum í rigningum næsta sólarhringinn. Þetta er annað vatnsveðrið sem gengur yfir fjórðunginn í vikunni. Minni háttar skemmdir urðu á vegum á miðvikudag.

Spáð er suðaustan 15-23 m/s og talsverðri rigningu á Austfjörðum fram til hádegis á morgun. Hætta er á vatnavöxtum og skriðuföllum um allt sunnanvert landið og austur um til Borgarfjarðar.

Vegagerðin er með hefðbundna vakt en þar hefur verið nokkuð að gera við lagfæringar eftir síðustu lægð sem gekk yfir Austfirði á miðvikudag.

Mestu skemmdirnar urðu í Álftafirði þar sem vegurinn fór í sundur. Malbik sópaðist þar í burtu og ekki verður að laga þá skemmd að fullu fyrr en vorar.

Minni háttar skemmdir urðu á þremur stöðum í sunnanverðum Fáskrúðsfirði þar sem vatn flæddi yfir veginn.

Þá hafa Vegagerðarmenn verið á vaktinni í Hvalnes- og Þvottárskriðum þar sem grjót hefur hrunið á veginn. Slíkt er þekkt vandamál í tíð eins og nú er.

Þá er varað við slitlagsblæðingum á milli Fáskrúðsfjarðar og Breiðdalsvíkur og að slitlagskögglar sem brota af bílum geti verið varasamir. Því sé mikilvægt að draga úr hraða þegar bílar mætast og skoða dekk áður haldið sé í langferð og hreinsa með dekkjahreinsi verði vart við tjöru.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.