Varabæjarfulltruar á Fljótsdalshéraði gengnir úr Framsóknarflokknum: Styðja ekki formanninn

Tveir varabæjarfulltrúar Framsóknarflokksins á Fljótsdalshéraði og tveir fulltrúar sem sitja í nefndum fyrir hönd flokksins hafa gengið úr flokknum á undanförnum dögum.

Óánægja virðist ríkja meðal framsóknarmanna á Héraði en Kristjana Jónsdóttir og Eyrún Arnardóttir, varabæjarfulltrúar sendu frá sér yfirlýsingar á Facebook í gær og fyrradag um úrsagnir sínar úr flokknum. Það sama gerðu þær Rita Hvönn Traustadóttir og Aðalheiður Björt Unnarsdóttir nefndarfulltrúar flokksins.

Í yfirlýsingu Kristjönu segir hún það erfiða ákvörðun að segja sig úr flokknum en að hún verði að standa með sannfæringu sinni. „Ég styð formann flokksins ekki lengur.” Yfirlýsingar hinna fulltrúanna eru á svipuðum nótum.

Í kjölfar umfjöllunar um Wintris-málið sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrsti þingmaður Norðausturkjördæmis, af sér sem forsætisráðherra en hann situr enn sem formaður Framsóknarflokksins.

Sigmundur hefur nýverið ferðast um landið og rætt við flokksmenn í Framsóknarflokknum og miðað við fjölmiðlaumfjöllun er engan bilbug á honum að finna. Hann hefur meðal annars sagst hlakka til þess að leiða flokkinn til kosninga. Þá hefur Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra lýst því yfir að hann styðji Sigmund til áframhaldandi formennsku flokksins.

Um þetta virðist þó ekki ríkja einhugur ef marka má viðbrögð þessara fyrrum framsóknarkvenna á Héraði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.