Vandamál með pólskukennslu á landsbyggðinni eftir einhliða ákvörðun Reykjavíkurborgar

Sveitarfélög á landsbyggðinni eru í vandræðum með að sinna pólskukennslu eftir að Reykjavíkurborg hætti að bjóða öðrum sveitarfélögum upp á þjónustu sína. Sveitarfélögin þurfa nú að finna aðrar leiðir til að aðstoða tvítyngda nemendur.

Þetta kemur fram í svari upplýsingafulltrúa fræðslusviðs Reykjavíkurborgar við fyrirspurn Austurfréttar.

Tilefni fyrirspurnarinnar er nýleg bókun fræðslunefndar Fljótsdalshéraðs sem óskaði eftir upplýsingum hví ekki væri lengur í boði fjarkennsla í pólsku fyrir elstu nemendur í grunnskólum eins og verið hefði. Þær upplýsingar fengust hjá sveitarfélaginu að skýringar á hvers vegna þjónustan væri ekki lengur í boði fyrir sveitarfélög á landsbyggðinni.

Í svari fræðslusviðs Reykjavíkurborgar kemur fram að þegar málefni grunnskóla hafi verið flutt til sveitarfélaga árið 1996 hafi borgin tekið að sér kennslu í norsku og sænsku fyrir grunnskólanemendur í landinu sem lögum samkvæmt áttu rétt á slíkri þjónustu. Skilyrðið hafi verið að önnur sveitarfélög greiddu allan þann kostnað sem til félli.

Borgin hafi byrjað að bjóða upp á pólskukennslu árið 2009 og hafi sú verið þjónusta verið umfram það sem lög kveða á um.

Tungumálaver borgarinnar sér um kennsluna og rekstur þess var tekinn til skoðunar fyrir tveimur árum. Þá kom í ljós að þau sveitarfélög sem keyptu þjónustu af því greiddu hlutfallslega lítinn kostnað miðað við fjölda nemenda.

Á vettvangi borgarstjórnar var ákveðið að hækka gjöld vegna lögbundinnar tungumálakennslu en fella niður kennslu í pólsku. Frá því nú í ágúst hefur pólskukennslan aðeins verði í boði fyrir grunnskólanemendur með lögheimili í Reykjavík.

Fræðslunefnd Fljótsdalshéraðs tók málið upp eftir að hafa borist erindi frá sendiherra Póllands á Íslandi eftir heimsókn hans og fund með forsvarsmönnum sveitarfélagsins í lok maí. Í bréfi sendiherrans lýsir hann pólska sendiráðið reiðubúið að aðstoða sveitarfélagið við að finna pólskukennara.

Fram kemur að sendiherrann hafi rætt stöðu pólskra innflytjenda á svæðinu á fundinum í vor. Í bréfinu hvetur hann til þess að tvítyngdum börnum bjóðist að læra pólsku sem annað mál í skólum eða í valáfanga. Það kenni þeim að bera virðingu fyrir báðum löndum og styrki tengsl þeirra við Pólland.

Í bókun fræðsluráðs Fljótsdalshéraðs kemur fram að sveitarfélagið sé einnig að vinna í frekari þjónustu við börn og ungmenni af erlendum uppruna. Nefndin stóð að tillögu sem lögð var fyrir haustþing Sambands sveitarfélaga á Austurlandi um helgina. Þar var hvatt til þess að sveitarfélög á Austurlandi stæðu saman í að móta áætlun fyrir móttöku og kennslu tvítyngdra nemenda.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.