„Væsir ekki um okkur“

Ábúendur á Hánefsstöðum í sunnanverðum Seyðisfirði láta vel að sér þótt ekki hafi bílfært þangað síðan stóra skriðan féll á utanverðan Seyðisfjörð þann 18. desember síðastliðinn. Hella hefur þurft niður mjólk því mjólkurbíllinn kemst ekki á staðinn.

„Þetta hefur ekki stórvægilega röskun fyrir okkur og engan vegin sambærilega við þéttbýlið,“ segir Vilhjálmur Jónsson, bóndi á Hánefsstöðum.

„Við vorum fjögur hér yfir hátíðarnar en erum vanalega þrjú. Það hefur ekki verið neitt vandamál með bjargir, við höfum farið á bát fyrir skriðuna einu eða tvisvar. Það hefur ekki væst um okkur. Við höfðum ekki verið mikið á ferðinni út af Covid, en þetta er vissulega öðruvísi takmörkun,“ segir hann.

Hann var heima við þegar stóra skriðan féll á utanverðan kaupstaðinn rétt fyrir klukkan þrjú þann 18. desember. Heimilisfólkið varð ekki vart við það sem gerðist inni í bænum.

„Við vorum inni en kannski heyrðist eitthvað í henni úti. Það eru 5-6 km frá okkur inn á skriðusvæðið og það er ekki í sjónlínu því Strandartindurinn er á milli. Auk þess var mikil rigning þannig það er hæpið að nokkuð hljóð hafi borist,“ segir hann.

Skömmu eftir skriðuna tók fólkið á Hánefsstöðum á móti þremur einstaklingum sem staddir voru fyrir utan skriðusvæðið og forðuðu sér í skyndi út eftir. „Það var ágætis ástand og stóðu sig vel. Þau sjá skriðuna úr öðru sjónarhorni en þeir sem voru inni í bæ eða á svæðinu undir henni, sérstaklega eitt þeirra sem sýndi snarræði til að koma sér undan. Það var gott að geta liðsinnt þeim.“

Í kjölfarið var kaupstaðurinn rýmdur en fólkið á Hánefsstöðum var rólegt þar. Fyrir ofan bæinn eru tún sem þýðir að þar er bæði flatar og skurðir sem myndu grafa úr skriðum. „Við erum á þannig svæði. Fjallshlíðin er líka annars konar en yfir byggðinni inn frá,“ bendir Vilhjálmur á.

Á Hánefsstöðum er rekið kúabú og lokun vegarins vegna skriðunnar hefur haft þau áhrif að hvorki hefur verið hægt að sækja þangað mjólk né koma með fóður. Stefnt er að því að opna veginn um helgina.

„Það hittist þannig á að fóðurstaðan hefur verið ágæt þótt það gangi á hana. Mér sýnist fóðrið endast miðað við þær fréttir sem við höfum um opnun.

Við höfum þurft að hella niður mjólk því ekki hefur verið hægt að koma henni frá okkur. Hún var síðast sótt hingað þriðjudaginn 15. desember. Miðað við hefðbundna áætlun mjólkurbílsins hefði hann átt að vera hjá okkur um það leiti sem stóra skriðan féll. Ég veit ekki hvort honum seinkaði eða hvort búið var að fresta ferð hans vegna aðstæðna.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.