Útlit fyrir tug milljóna halla hjá sýslumanni

Rúmar sextíu milljónir vantar upp á að endar nái saman hjá Sýslumanninum á Austurlandi miðað við fjárhagsáætlun næsta ársins. Búið er að gera tillögu um hagræðingu í rekstri og segir sýslumaðurinn að ekki verði gengið lengra nema að fækka fólki og jafnvel loka starfsstöðvunum.


Greint var frá því fyrir jól að miðað við tillögu að fjárlögum stefndi í verulegan halla hjá sýslumanninum í ár. Embættið fékk enga viðbót þegar fjárlögin voru samþykkt og hefur því 136,7 milljónir til ráðstöfunar á þessu ári.

Lárus Bjarnason sýslumaður segir í svari við fyrirspurn Austurfréttar að samkvæmt rekstraráætlun ársins 2016 verði 36,8 milljóna halli á rekstrinum. Þegar sá halli sé tekinn af séu því aðeins 100 milljónir eftir.

Rekstrarkostaður embættisins nam 162,6 milljónum. Þá er bilið 62 milljónir og hefur ekkert tillit verið tekið til verðlagshækkana.

Á sama tíma hefur innanríkisráðuneytið farið fram á að sýslumannsembættið skili inn rekstraráætlun fyrir árið 2017 með tillögum um hvernig endar eigi að ná saman.

Lárus segir að kostnaður í áætlun embættisins sé 147,6 milljónir. Þar sé miðað við óbreyttan fjölda starfsmanna en upp á vanti ýmis kjarasamningsbundin laun, aksturskostnað, dvalarkostnaðar vegna funda og annarra ferða sem nauðsynlegt megi telja í rekstrinum.

Tillögurnar eru nú til meðferðar í ráðuneytinu og beðið eftir hvort þær verði samþykktar eða sýslumanninum gert að skera frekar niður. Það leiði til þess að segja þurfi upp starfsmönnum eða loka afgreiðslustöðum.

Lárus segir að sýslumannsembættið hafi jafnframt bent á að stór hluti starfsmanna þess fari á eftirlaun á næstu árum. Vonast sé til að þá fáist svigrúm til endurskipulagningar án þess að til uppsagna þurfi að koma.

Sýslumannsembættum var fækkað og þau stækkuð um áramótin 2014/15. Í nýlegri tilkynningu Sambands sveitarfélaga á Austurlandi var minnt á að þá hefði verið gefin fyrirheit um að þau yrðu efld með auknum verkefnum og þar með fjárveitingum. Við það hafi ekki verið staðið.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.