Uppgröfturinn á Stöð talinn einn sá áhugaverðasti í heiminum

Rannsókn á skála frá víkingaöld á Stöð í Stöðvarfirði er ein af áhugaverðustu fornleifarannsóknum síðasta árs að mati sérfræðinga Archeofeed. Stjórnandi uppgraftarins segir ánægjulegt að fá alþjóðlega athygli.


„Það er fyrst og fremst skemmtilegt að erlendir kollegar hafi áhuga á rannsóknum á Íslandi. Víkingaaldarrannsóknir eru mjög öflugar á Íslandi því við höfum einna best förnu minjar í heiminum.

Það er meira eftir af bæjunum þannig að efniviðurinn getur varpað skýrara ljósi á daglegt líf á víkingaöld heldur en á hinum Norðurlöndunum þar sem plógurinn hefur skemmt svo mikið.“

Þetta segir Bjarni F. Einarsson, fornleifafræðingur sem stýrir uppgreftrinum á Stöð. Rannsóknin þar meðal fimmtán verkefna víða um heim sem sérfræðingarnir telja leggja nýja þekkingu til fornleifafræðinnar. Á listanum eru einnig verkefni á Bretlandseyjum, Ítalíu, Perú og Kanada svo dæmi séu tekin.

Nýjar upplýsingar um landnám Íslands

Archeofeed er síða með safni frétta úr fornleifafræðiheiminum. Henni er haldið úti af fornleifafræðingum bæði sem gagnagrunnur fyrir fræðimenn en einnig fróðleiksveitu fyrir leikmenn. Viðurkenningarnar eru veittar verkefnum sem auka þekkingu um fortíðina, skoða ókönnuð svæði og varðveita menningararfleifð.

Í umsögn um rannsóknina á Stöð er vakin athygli að hún bendi til landnáms á Íslandi nærri öld fyrr en til þessa hefur verið talið. Í samtali við Austurfrétt sagði Bjarni frá því að ný aldursgreining lægi nú fyrir sem benti heldur til þess að skálinn væri eldri en talið hefði verið í fyrstu.

Staðfest er að minjarnar eru frá því talsvert fyrir 1000, líklega skömmu eftir árið 800. „Það er ekki örugg en vísbendingarnar eru sterkar.“

Haldið áfram í júní

Hópurinn sem Bjarni stýrði síðasta sumar skoðaði þrjár hús. Það elsta kallar hann „útstöð“ en hinn eiginlegi landnámsskáli er talinn byggður ofan á það. „Gólfið og veggirnir eru notaðir þannig að húsin renna saman.“

Hann segir að í sumar hafi komið í ljós „afskaplega vænir gripir“ og nefnir þar níu perlur og silfur. Þá er staðfest að eitt húsið er smiðja en á næstunni verða verkfæri af svæðinu skoðuð nánar.

Bjarni áætlar að minnsta kosti fimm sumur þurfi í uppgröftinn og er aðeins það fyrsta að baki. Framhald verksins skýrist í mars þegar úthlutað verður úr Fornminjasjóði. Bjarni kveðst vongóður um að fá styrk í verkið þannig að hægt verði að byrja 1. júní og „halda áfram eins lengi og peningurinn endist“ sem gæti orðið mánuður.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.