Unnið að viðgerðum á Norðfjarðarflugvelli í dag

Unnið hefur verið að viðgerðum á Norðfjarðarvelli í dag. Frost í jörðu varð til þess að ekki var hægt að ráðast um endurbætur um leið og athugasemdir voru gerðar við frágang verktaka á vellinum.


Eins og Austurfrétt greindi fyrst frá á föstudag hefur völlurinn verið ónothæfur síðan 13. nóvember vegna viðskilnaðar verktaka á vegum Landsnets.

Verktakinn fékk viku framkvæmdaleyfi til að grafa streng í gegnum völlinn. Talsmenn bæði Landsnets og Isavia, sem sér um völlinn, segja að um leið og verktakinn skilaði af sér verkinu hafi verið gerðar athugasemdir við fráganginn.

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að verktakinn hafi ráðist í úrbætur en þær ekki dugað til. Í kjölfarið hafi fylgt erfið tíð með frosti og klaka í vellinum sem orðið hafi til þess að ekki var hægt að halda áfram.

Sama segir Steinunn Þorsteinsdóttir hjá Landsneti. „Það komu athugasemdir um frágang eftir að skurðinum á vellinum var lokað. Strax var farið í að lagfæra það. Þegar fara átti í lokafrágang byrjaði að snjóa og þótti óráðlegt að þjappa snjó ofan í för og hugsanlegt sig á strengleiðinni. Ekki hefur verið unnt að valta vegna ástands vallarins, það var klaki í honum, fyrr enn í morgun.

Völlurinn var valtaður í morgun og fulltrúar frá Landsneti og ISAVIA hafa fundað um hvort rétt sé að taka efsta lagið af og setja nýtt. Ef af því verður gæti verkið hafist á morgun.

Vegna þessa hefur völlurinn verið ónothæfur í þrjár vikur. Guðni segir reyndar að tíðarfarið hafi verið þannig að ekki sé víst að völlurinn hefði verið notaður þótt yfirborðið hefði verið lagi.

„Hann er lítið notaður á veturna. Slitlag, ljós og fleira á honum er ekki nógu gott og ef eitthvað er að veðri verður mikil ókyrrð milli fjallanna. Veðrið að undanförnu hefur hvorki verið hagfellt til lendinga né viðgerða.

Það er samt hundleiðinlegt að ekki hafi verið gengið nógu vel frá og við pressum á Landsnet og verktakann að þetta verði klárað sem fyrst.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.