Umhverfisverðlaun fyrir uppbyggingu í Stórurð

Verkefnið Dyrfjöll – Stórurð, gönguparadís, hlaut í gær umhverfisverðlaun Ferðamálstofu fyrir árið 2016. Verkefnið var unnið í samstarfi Borgarfjarðarhrepps og Fljótsdalshéraðs, og þykir dæmi um hvernig samvinna getur leitt til góðra verka.


Það voru Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, og Jón Þórðarson, sveitastjóri Borgarfjarðar eystri sem veittu umhverfisverðlaunum Ferðamálastofu viðtöku við lok fjölsótts ferðamálaþings í Hörpu í gær úr hendi Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, ráðherra ferðamála. Umhverfisverðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 1995 og var þetta því í 22. sinn sem þau voru afhent.

Styrkir alla þrjá helstu þætti sjálfbærrar þróunar

Verkefnið Dyrfjöll – Stórurð, gönguparadís, fólst í að bæta aðgengi að og styrkja göngusvæði Stórurðar og Dyrfjalla með stikun og lagfæringu göngustíga og merkinga, uppsetningu upplýsingaskilta og –korta og síðast enn ekki síst byggingu þjónustuhúss.

Að mati Ferðamálastofu bætir þjónustuhúsið ekki aðeins úr skorti á salernisaðstöðu heldur virkar það sem upphafsreitur eða gátt inn á svæði sem bjó ekki áður yfir skýrum upphafsstað eða útgangspunkti.

Þá er hönnun arkitektsins Rönning Anderssen í senn frumleg og stílhrein og nýtir sér sérstöðu og svip Dyrfjalla og í heild styrki verkefnið sjálfbæra ferðamennsku gönguferða á ferðmannasvæði sem þoli meiri nýtingu, auki öryggi ferðamanna, efli lýðheilsu, stuðli að náttúruvernd og auki staðarstolt heimamanna.

Undanfarin ár hafa verðlaunahafar verið valdir úr tilnefningum sem borist hafa Ferðamálastofu um fyrirtæki í ferðaþjónustu sem í starfi sínu hafa skarað fram úr í umhverfismálum en í ár var breytt til og verðlaunin veitt fyrir verkefni sem hlotið hefur styrk úr Framkvæmdasjóði ferðmannastaða á tímabilinu 2014-2016 og eru til fyrirmyndar.

Mynd: Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra ferðmála, veitti umhverfisverðlaunin í lok fjölsótts Ferðamálaþings í Hörpu í dag. Með henni á myndinni eru Guðrún Dóra Brynjólfsdóttir, sérfræðingur í umhverfismálum hjá Ferðamálastofu, Jón Þórðarson, sveitarstjóri Borgarfjarðar eystra, Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, Hjörleifur Finnsson, verkefnisstjóri umhverfismála hjá Ferðamálstofu og Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri.

storud hus 0017 web

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.