Tveir í einangrun eftir landamæraskimun

Tveir einstaklingar, búsettir á Austurlandi, eru komnir í einangrun eftir að hafa greinst með Covid-19 smit við komuna til landsins.

Samkvæmt tölum frá Covid.is eru nú tveir einstaklingar í einangrun. Kristján Ólafur Guðnason, yfirlögregluþjónn, segir fólkið hafa sama dvalarstað og sé nú þar í einangrun.

Fólkið fór í skimun við komuna til landsins en fékk að henni lokinni að halda rakleitt til síns heima og vera í sóttkví uns niðurstöður bárust.

Ekki á að vera nein hætta á að tvímenningarnir hafi smitað aðra á svæðinu. Einn einstaklingur er nú í sóttkví á Austurlandi.

Aðgerðastjórn áminnir Austfirðinga um að fara áfram með gát þótt í dag hafi verið gefið út að reglur verði rýmkaðar á ýmsum sviðum næsta miðvikudag. „Sem stendur siglum við á lygnum sjó. Áframhaldandi persónuleg aðgát og samheldni okkar vegur þungt í að svo megi verða áfram og alla leið í land.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar