Tveir farþegar Norrænu með Covid-19 smit

Tveir farþegar Norrænu, sem væntanleg er til Seyðisfjarðar á morgun, greindust með Covid-19 smit skömmu eftir að ferjan lét úr höfn í Danmörku á laugardag. Þeir eru í einangrun um borð.

Þetta kemur fram í tilkynningu aðgerðastjórnar almannavarnanefndar Austurlands.

Tveir ferðafélagar þeirra reyndust ósmitaðir ern eru í sóttkví. Enginn fjórmenninga sýnir einkenni smits og ekki er talin ástæða til að ætla að smit hafi borist í farþega eða áhöfn.

Hópurinn fer í sýnatöku við komuna til Seyðisfjarðar og ætti niðurstaða hennar að liggja fyrir annað kvöld. Áframhaldandi sóttkví bíður þeirra og einangrun í samræmi við reglur.

Alls eru 27 farþegar með ferjunni og verða sýni tekin úr þeim á morgun. Þeir þurfa síðan að dvelja í 5-6 daga í sóttkví eða uns niðurstöður liggja fyrir úr seinni skimun þeirra.

Enginn er með virkt Covid smit á Austurlandi og aðeins einn í sóttkví. Aðgerðastjórnin minnir samt áfram á persónubundnar smitvarnir svo sem fjarlægðarmörk, handþvott, grímunotkun, sprittnotkun og að ferðast ekki að óþörfu milli landshluta.

Óvænt smit á Landakoti og erfið staða á Landsspítalanum í kjölfarið sýni glögglega mikilvægi þess að slaka hvergi á.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.