Tvær skriður við byggðina á Seyðisfirði

Tvær skriður hafa fallið í og við byggð á Seyðisfirði í dag. Sú seinni lenti á húsi við Austurveg sem hýsir menningarmiðstöðina Skaftfell.

Fyrri skriðan féll fyrir klukkan þrjú ofan við Botnahlíð, efstu götu bæjarins að sunnanverðu. Sú skriða stöðvaðist fyrir ofan byggðina en fór þó nærri húsi, samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðadeild Veðurstofunnar.

Seinni skriðan féll á fjórða tímanum og lenti á Skaftfelli sem stendur við götuna Austurveg. Aur og vant úr henni fór reyndar nokkru lengra og yfir götuna sjálfa.

Umfang skriðanna er ekki enn ljóst að fullu og vart von til að svo verði fyrr en birtir á morgun.

Samkvæmt upplýsingum frá ofanflóðadeildinni féll minni skriða ofan við bæinn síðustu nótt. Líklegt þykir að fleiri skriður hafi fallið í firðinum þótt þær sjáist ekki enn, einkum ef þær eru í ár- eða lækjafarvegum þar sem enn verra er að koma auga á þær.

Verið er að rýma hús við göturnar tvær á Seyðisfirð og fjöldahjálparstöð hefur verið opnuð í félagsheimilinu Herðubreið. Almannavarnir hafa lýst yfir óvissustigi.

Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út til að aðstoða við rýminguna, vakta umferð um svæðið og huga að íbúum að því er fram kemur í tilkynningu frá Landsbjörgu. Þar kemur einnig fram að tjón hafi verið óverulegt í aurflóðunum en einhverjir lausamunir runnið úr görðum.

Skriðuföllin koma eftir miklar rigningar á Austfjörðum síðustu daga. Ekki er von á að hún minnki að ráði fyrr en líður á morgundaginn.

Eftir hádegi í gær féll fylla í Ljósá á Eskifirði og eftir hádegi í dag sást skriða ofan vegar við Gvendarnesbrúnir, milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.