Tíminn nýttur til að selja hrognabirgðirnar

Tækifæri hefur gefist til að selja miklar birgðir af loðnuhrognum, sem söfnuðust upp á vertíðinni í fyrra, í ár þar sem engin vertíð hefur verið. Á móti hafa sjávarútvegsfyrirtæki orðið af möguleikunum á að selja frystar afurðir.

„Við framleiddum mikið af hrognum í fyrra, 26-8 þúsund í landinu meðan markaðurinn tekur 10-12 þúsund tonn á ári. Það hefur því verið mikið af hrognum hjá öllum framleiðendum.

Vonandi er að það losni aðeins um þessar birgðir núna. Það eru aðeins farnar að koma fyrirspurnir um þær,“ sagði Gunnþór Ingvason, forstjóri Síldarvinnslunnar, á kynningu um ársuppgjör Síldarvinnslunnar.

Hann sagði veruleg vonbrigði að ekki hefði tekist að finna loðnu í því magni að hægt væri að gefa út kvóta í ár. Verst væri það fyrir markaði sem kaupi frosnar afurðir.

„Í fyrra seldust þær nánast strax eftir vertíðina. Það var mikil eftirspurn eftir hrygnu í Asíu og hæng í Austur-Evrópu. Vonandi hefur loðnubresturinn nú ekki áhrif á þessa markaði.“

Í stað loðnuvertíðar í byrjun árs hafa uppsjávarútgerðirnar einbeitt sér að kolmunna en kvóti á honum var aukinn. Skip Síldarvinnslunnar hafa að undanförnu sótt á Rockall-hafsvæðiði, vestur af Skotlandi. Gunnþór sagði veiðina þar góða þótt langt þyrfti eftir fiskinum.

Síðasta ár var eitt hið besta í sögu Síldarvinnslunnar. Hagnaður fyrirtækisins var rúmir tíu milljarðar íslenskra króna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.