Tími stórra lausna í atvinnumálum liðinn

Frambjóðendur í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi eru almennt jákvæðir í garð fiskeldis en leggja áherslu á mikilvægi fjölbreytta lausna í atvinnulífi. Þeir telja mikilvægt að ýta undir uppbyggingu innviða til að efla atvinnulíf í sveitum.

Þetta var meðal þess sem fram kom á framboðsfundi sem Austurfrétt/Austurglugginn stóðu fyrir á þriðjudagskvöld en kosið verður á móti. Að loknum framsöguræðum var opnað fyrir spurningar frá íbúum.

Þar var meðal annars spurt út í hvernig framboðin sæju fyrir sér sjókvíaeldi í nýju sveitarfélagi. Flestir frambjóðendur töluðu jákvætt um eldið en bentu á að það væri ekki eina lausnin.

„Ég held það sjái allir sem vilja hve mikil tækifæri í eldinu og hve mikil lyftistöng það hefur verið fyrir Djúpavog. Þetta snýst ekki bara um eldið sjálft heldur er spennandi hvernig fisknum er komið á markað, til dæmis í gegnum flugvöllinn á Egilsstöðum. Við verðum að skoða hvaða áhrif það hefur á uppbyggingu flugvallarins til framtíðar,“ sagði Stefán Bogi Sveinsson, oddviti Framsóknarflokksins.

Hann sagðist vera jákvæður gagnvart vaxandi sjókvíaeldi á grundvelli góðs skipulags haf- og strandsvæða. Hann bætti því þó við að synd væri að sveitarfélögin réðu ekki ferðinni í þeirri skipulagsgerð.

Fiskeldi við Ægissíðuna?

Gauti Jóhannesson, oddviti Sjálfstæðisflokks, tók undir gagnrýnina á skipulagið. „Það er miður hve lítið aðgengi sveitarfélögin hafa að þessum leyfisveitingum. Það er algjörlega út í hött að sveitarfélögin fengu ekki að ákveða hvar kvíarnar voru settar niður. Ég er sannfærður að ef hægt væri að halda úti eldi við suðvesturhornið að Reykvíkingum gremdist ef þeir hefðu ekkert um að það að segja hvort settar yrðu kvíar í Skerjafjörðinn eða við Ægissíðuna.“

Gauti sagði að þótt eldið væri gott þá mætti ekki treysta á það um of. „Það er bara ein stoð í atvinnulífi sem verður að vera fjölbreytt og öflugt. Þótt eldið geri góða hluti er tími stórra lausna í atvinnumálum minni byggðarlaga liðinn.“

Þröstur Jónsson, oddviti Miðflokksins, sagðist jákvæður fyrir eldinu en gagnrýndi takmarkað skipulagsvald sveitarfélaganna. „Hverjum kemur þetta meira við en okkur sem búum í samfélaginu?“

Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans, ítrekaði mikilvægi fjölbreytninnar. „Eldið er ekki töfralausn. Það verður að hugsa fjölbreyttar leiðir í atvinnumálum. Það eru mistök að hugsa í risastórum lausnum.“

Nauðsynlegt að eftirlitið sé öflugt

Mesta gagnrýnin á fiskeldið kom frá Jódísi Skúladóttur, oddvita Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem lagði áherslu á að því yrði sýnt öflugt aðhald.

„Það er búið að gefa út leyfi og eldið er komið af stað en það verður að vanda til verka og gera strangar kröfur um að öllu eftirliti sé fylgt eftir eins fast og hægt er. Fiskeldi er mjög raskandi starfsemi og ekki búið að skoða afleiðingar þess nóg?

Við þurfum að spyrja hví Norðmenn horfa hingað, hvers vegna þeir leyfa ekki meira í sínu landi? Það er enn vandi með sjúkdóma og mikill fórnarkostnaður við framleiðslu fóðurs. Þetta er sami vandi og með smávirkjanir, fyrst gefum við út leyfi og finnum svo út rest. Það er alltaf skrýtin afstaða.“ Hún skaut því einnig að henni þætti gaman að heyra öll framboðin vera sammála og lýsa í raun atvinnustefnu VG.

Snjómokstur alltaf hitamál

Einnig var spurt að því hvað framboðin hygðust til að efla sveitirnar. Flestir komu þar inn á innviði eins og uppbyggingu þriggja fasa rafmagns, ljósleiðara og samgöngur. „Snjómokstur er alltaf hitamál,“ sagði Kristjana Sigurðardóttir frá Austurlistanum.

„Enn í dag er mismunað eftir búsetu þegar rukkað er fyrir flutningskostnað rafmagns. Þetta var svona með símann en er löngu hætt,“ sagði rafmagnsverkfræðingurinn Þröstur. Hann bæti við að Miðflokkurinn vildi styðja við frumkvöðla í landbúnaði. „Það má aldrei vanmeta íslenska sveitamanninn.“

Helgi Hlynur Ásgrímsson, sem skipar annað sætið hjá Vinstrihreyfingunni – grænu framboði, kvaðst binda vonir við aukna möguleika í fullvinnslu afurða. Hann benti einnig að á ferðum framboðsins um Úthérað hefði mikið verið kvartað undir sorphirðu sem þyrfti að lagfæra.

Fulltrúar Framsóknarflokks sögðust vilja skoða möguleikann á að nýta aðferðafræðina sem kennd er við brothættar byggðir og hefur meðal annars verið beitt á Borgarfirði til að efla sveitirnar.

„Sveitarfélagið býr ekki til frumkvöðla en þarf að leitast við að veita grunnþjónustu sem er forsenda frumkvöðlanna. Það skiptir máli að standa með sveitunum í þeim verkefnum sem sveitirnar sjálfan vilja fara í, sinna dreifbýlinu ræktarsemi og ekki yfirgefa það sem þó hefur verið gert þar, til dæmis sinna skólum í dreifbýli og ekki vanrækja viðhald á félagsheimilinu.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.