Tillaga um sameiningu tónskóla felld í fræðslunefnd: „Don‘t break up a winning team“

Tveir fulltrúar Á-lista, sem myndar meirihluta með Sjálfstæðisflokki og Héraðslista í bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs, greiddu atkvæði gegn tillögu um sameiningu tónskólanna á Héraði og felldu þar með tillöguna á fundi fræðslunefndar á þriðjudagskvöld.


Fyrir fundinum lá tillaga um sameiningu Tónlistarskólans í Fellabæ og Tónlistarskólans á Egilsstöðum undir nafni Tónlistarskóla Fljótsdalshéraðs frá og með næsta skólaári. Skólinn yrði með tvær starfsstöðvar, í Fellabæ og á Egilsstöðum.

Davíð Þór Sigurðsson, formaður nefndarinnar frá D-lista og Aðalsteinn Ásmundarson fulltrúi L-lista greiddu atkvæði með tillögunni. Í bókun þeirra lýsa þeir þeirri skoðun sinni að fleiri tækifæri felist í sameiningu en ógnanir.

Eins hafi verið sýnt fram á faglegur, félagslegur og fjárhagslegur ávinningur geti hlotist af sameiningunni.

Hrund Erla Guðmundsdóttir og Soffía Sigurjónsdóttir, fulltrúar Á-lista og Gunnhildur Ingvarsdóttir af B-lista, greiddu atkvæði gegn tillögunni.

Í bókun þeirra er bent á að ýmsir óvissuþættir séu að baki fullyrðingum um sparnað við sameiningu. Útilokað virðist til dæmis að stjórnunarhlutfall lækki sem er ein af forsendum sparnaðarins og því jafnvel haldið fram að hann myndi aukast.

Þær benda einnig á að ánægja sé meðal skólastarfið eins og það sé meðal foreldra og á fundum með skólastjórum og tónlistarkennurum hafi fleiri talið galla við sameiningu heldur en hitt. „Umræðurnar á þessum fundum gáfu ekki tilefni til að fara í breytingu á skipulagi skólanna,“ segir í bókuninni.

Þá er því haldið fram að fyrri sameiningar á tónskóla á Héraði, svo sem milli Egilsstaða og Hallormsstaðar, hafi ekki gefið góða raun.

„Ekki er sýnt fram á með óyggjandi hætti að fjárhagslegur ávinningur verði við sameiningu og engin rök fyrir faglegum né félagslegum ávinningi.

Okkar niðurstaða er eins og einn viðmælanda okkar í umræðunni orðaði það „don‘t, break up a winning team“.“

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.