Tíðinda vænta um meirihlutaviðræður eftir hádegið í Fjarðabyggð

Tíðinda er að frétta um hvernig línur muni liggja í formlegum meirihlutaviðræðum í Fjarðabyggð eftir hádegi. Meirihluti Framsóknarflokks og Fjarðalista hélt í kosningunum á laugardag en tapaði einum fulltrúa. Sjálfstæðisflokkurinn vann hins vegar kosningasigur og horfir til Framsóknar sem fyrsta kostar í viðræðum.

Í samtali við Austurfrétt sagði Jón Björn Hákonarson, oddviti Framsóknarflokks, að tíðinda mætti vænta upp úr hádegi í dag. Í gær hefðu farið fram óformlegar viðræður við aðra flokka og Framsóknarfólk síðan komið saman til fundar í gærkvöldi.

Framsóknarflokkur og Fjarðalisti hafa verið saman í meirihluta síðustu fjögur ár eftir að kosningasigur listans, auk innkomu Miðflokksins, felldi meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Að þessu sinni tapaði Fjarðalistinn tveimur af sínum fjórum fulltrúum meðan Sjálfstæðisflokkurinn náði yfir 40% fylgi og fór úr tveimur fulltrúum í fjóra. Þetta er besti árangur sem flokkurinn hefur náð í kosningum í Fjarðabyggð.

Ragnar Sigurðsson, oddviti listans, segir að flokkinn horfa til þess að mynda meirihluta og fyrsti kostur sé að gera það með Framsóknarflokknum. „Þetta eru þeir flokkar sem bæta við sig og því teljum við eðlilegast að byrja þar.“

Meirihlutinn hélt, Framsókn bætti við sig fór úr tveimur fulltrúum í þrjá enda Miðflokkurinn horfinn á braut. Útkoman er hins vegar sú að meirihlutinn tapar, fer úr sex fulltrúum í fimm.

Meirihluti Fjarðalista og Sjálfstæðisflokks er einnig mögulegur. Ragnar segir forsvarsfólk listanna tveggja hafa rætt saman í síma. Staðan sé samt sú að á þessu stigi séu allar viðræður enn óformlegar og ekkert útilokað um mögulegt samstarf. Hann væntir þess þó að Sjálfstæðisflokkurinn verði í meirihluta enda séu kosningaúrslitin vísbending til þess.

„Við höfum leitast eftir að taka samtalið út frá okkar styrk í kjölfar þessarar lýðræðislegu niðurstöðu. Ég hef ekki upplifað annað en horft sé til þessara niðurstaðna.“

Aðspurður um hverju hann þakki góðan árangur svarar hann: „Við settum saman sterkan lista með breiðri skírskotun til allrar Fjarðabyggðar með kraftmiklu fólki og fundum strax mikla hrifningu af honum. Við fundum líka ákall um breytingar og íbúar virtist hrifnir af því sem við lögðum á borðið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.