Þurrgeymslan að verða fokheld

Framkvæmdir við nýja þurrgeymslu á athafnasvæði Eskju á Eskifirði hafa gengið hratt og vel. Ekki hefur verið jafn mikil þörf fyrir hana á yfirstandandi loðnuvertíð og reiknað var með þar sem veiðar hafa gengið treglega.

Jarðvegsframkvæmdir vegna geymslunnar hófust í desember og nú er búið að klæða húsið. Beðið er eftir hurðum í það til að það teljist fokhelt.

Um er að ræða 1500 fermetra stálgrindarhús sem reist ef af Borgarafli. „Við hugsum okkur að geyma því aðföng, svo sem umbúðir og plast í miklu magni auk þess sem þar verður geymsla fyrir mjölpoka sem við sendum síðan til Asíu og Ameríku,“ segir Páll Snorrason, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Eskju.

Reiknað var með að loðnumjöl úr yfirstandandi loðnuvertíð yrði geymt í húsinu. Ekki hefur verið jafn mikil þörf fyrir það og reiknað var með í fyrstu. „Vertíðin hefur ekki verið jafn öflug og við ætluðum. Það gekk illa í febrúar því veður voru válynd og lítil veiði. Mars lofar heldur ekki góður.“

Loðnuveiðiskipin hafa síðustu vikur mest verið inni á Faxaflóa. „Okkar skip eru á miðunum að elta loðnuna. Hún er þarna en virðist dreifð. Þess vegna gengur veiðin illa en vonandi fer hún að glæðast.“

Verðmætasti tími vertíðarinnar, hrognatakan, fer nú í hönd. Hún er hafin hjá Eskju.

Íslensku uppsjávarfyrirtækin hafa undanfarin ár selt töluvert af afurðum sínum til Úkraínu. Sá markaður er hins vegar í uppnámi eftir innrás Rússa fyrir tveimur vikum. Páll segir góð tengsl hafa myndast milli Eskju og viðskiptavina þar. Erfitt sé að horfa upp á þær hörmungar sem yfir þá dynji.

„Úkraína er mjög stór viðskiptavinur hjá okkur. Við höfum selt mest í gegnum Iceland Seafood og eigum engar útistandandi kröfur. Við erum samt uggandi yfir framhaldinu. Við þekkjum þarna marga og höfum heimsótt okkar helstu viðskiptavini nokkrum sinnum. Þetta kemur því ekki vel við okkur og hugur okkar er hjá fólkinu, við vonum innilega að þarna komist á friður.

Við teljum hins vegar að sala á fiski nái jafnvægi með tíð og tíma. Það finnast aðrir markaðir þótt það kosti tíma og vinnu.“

Mynd: Gungör Tamzok


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.