Þróar textíl og band úr iðnaðarhampi frá Berufirði

Hinn þekkti fatahönnuður Sigrún Halla Unnarsdóttir hefur hlotið styrk úr Hönnunarsjóði til að þróa textíl og band úr iðnaðarhampi. Hampinn fær hún m.a. frá Berufirði.

„Það er draumastaðan hjá mér að geta framleitt íslenska vöru úr íslensku hráefni,“ segir Sigrún Halla um þetta nýja verkefni sitt.

Fram kemur í máli hennar að styrkurinn sé ný tilkominn og að hún þurfi að huga að ýmsu eins og til dæmis tækjakosti við að vinna textíl og band úr iðnaðarhampi. „En málin þróast hratt þessa stundina. Fyrsta hampuppskeran hérlendis er komin í hús í Berufirði og í Grímsnesinu og ég mun fá hráefni frá þeim stöðum,“ segir Sigrún Halla.

Hún hefur aðstöðu hjá Glófa fatahönnun og saumastofu við að þróa textíl úr hampinum. „Ég hef verið í sambandi við Pálma Einarsson í Berufirði og hann ætlar að flytja inn tækjabúnað til að vinna hampinn fyrir textíl og band. Hugmyndin hjá honum er síðan að gefa öðrum hampbændum tækifæri til að nota þessi tæki hjá sér. Það er því mikil samvinna í gangi á þessu sviði hér innanlands.“

Sigrún Halla segir að ekki sé hægt að segja til núna hvenær fyrstu flíkur úr íslenskum hampi líti dagsins ljós. Hlutirnir séu þó að gerast hratt þessa dagana.

„Það sem ég þyrfti helst að gera er að heimsækja textílgerð með hampi erlendis og fylgjast með framleiðslunni þar. En slíkt verður að bíða í augnablikinu vegna COVID,“ segir Sigrún Halla.

Nú þegar hefur komið í ljós að iðnaðarhampur hentar vel til ræktunar hérlendis. Slíkt skapar ótalmarga möguleika til vinnslu á afurðum eins og byggingarefni, pappír, eldsneyti, matvælum og síðast en ekki síst textíl.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.