Þriðjungur fulltrúa í kjörstjórnum úr leik vegna vanhæfis

Ljóst er að þriðjungur þeirra fulltrúa sem skipa eiga kjörstjórnir í Múlaþingi fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar þurfa að víkja sæti vegna vanhæfis. Reglur þar um voru hertar til muna í nýjum kosningalögum.

„Við þurfum að finna ansi marga fulltrúa,“ segir Óðinn Gunnar Óðinsson, skrifstofustjóri Múlaþings um þá stöðu sem er að koma upp í kjörstjórnum.

Hertar reglur

Ný kosningalög tóku gildi um síðustu áramóti. Með þeim voru sameinaðar í eitt lög um kosningar til sveitastjórna, Alþingis og forseta Íslands. Kosið verður eftir þeim í fyrsta skipti í sveitastjórnarkosningunum þann 14. maí. Kjörstjórnirnar voru skipaðar áður en þau tóku gildi.

Vanhæfisreglur um fulltrúa í kjörstjórn í nýju lögunum eru hinar sömu og í almennum stjórnsýslulögum, þar með talið um sveitarstjórnir. Fulltrúi telst vanhæfur og víkja sæti ef maki hans, fyrrverandi maki sambúðarmaki, fyrrverandi sambúðarmaki eða einstaklingur skyldur eða mægður honum í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur honum með sama hætti vegna ættleiðingar er á framboðslistar.

Þetta eru mun strangari reglur en áður. Samkvæmt eldri reglum þurftu fulltrúar í kjörstjórn aðeins að víkja ef þeir voru sjálfir komnir í framboð, eða ef til úrskurðar kæmu mál sem vöruðu maka eða aðra einstaklinga skylda eða mægða í beinan legg eða öðrum til hliðar.

Fleiri gætu bæst við

Í Múlaþingi eru fimm kjördeildir, tvær á Fljótsdalshéraði og síðan ein á Borgarfirði, önnur á Djúpavogi og sú þriðja á Seyðisfirði til viðbótar við yfirkjörstjórnina. Í hverri þeirra sitja sex einstaklingar, þrír aðal og þrír til vara. Alls eru því 42 einstaklingar í kjörstjórnum Múlaþings.

Fjögur framboð hafa birt lista sína fyrir kosningarnar í vor. Þegar er orðið ljóst að rúmur þriðjungur þeirra fulltrúa sem sitja í kjörstjórnunum telst vanhæfur, en búist er við að fimmti listinn bætist við. Þá er ljóst að tveir af sex fulltrúum í yfirkjörstjórn teljast vanhæfir.

„Þetta verður ekki ljóst fyrr en allir listar koma fram,“ segir Óðinn Gunnar. „Við erum að byrja að skoða þessi mál en mér þykir líklegt að í fleiri sveitarfélögum sé fólk að vakna upp við vondan draum.“

Frestur til að skila inn framboðslistum rennur út á hádegi föstudaginn eftir viku, 8. apríl. Yfirkjörstjórnir hafa það hlutverk að staðfesta framboðslista og birta formlega. Óðinn Gunnar segir ekki búist við að þeir sem ljóst er að séu vanhæfir mæti til kjörstjórnarstarfa þann dag.

Engin áhrif á óhlutbundna kosningu

Sveitarstjórnir skipa kjörstjórnir. Sveitarstjórn Múlaþings kemur saman til reglubundins fundar miðvikudaginn 13. apríl. Óðinn Gunnar býst við að þar verði kosnir nýir fulltrúar í stað þeirra sem eru úr leik.

Á skrifstofu Fjarðabyggðar fengust þær upplýsingar að málið væri í skoðun. Þar eru ein undirkjörstjórn í hverju hverfi, þar með talið Mjóafirði auk yfirkjörstjórnar. Það þýðir að 48 fulltrúar eru í átta kjörstjórnum þar.

Reglurnar hafa hins vegar engin áhrif þar sem fram fara óhlutbundnar kosningar, eins og venjan hefur verið í Fljótsdal. Þá hefur reglan heldur ekki áhrif á kosningu til heimastjórnar. Undirkjörstjórnir hafa haldið utan um það kjör á Borgarfirði, Seyðisfirði og Djúpavogi en sérstök kjörstjórn á Fljótsdalshéraði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.