Þóroddur Bjarnason: Að byggja upp Háskóla Íslands var byggðamál

Prófessor við Háskólann á Akureyri telur miklar breytingar framundan á háskólanámi í heiminum og spyr hvort stærri háskólar séu tilbúnir að takast við þá. Uppbygging menntastofnana hefur haft mikil áhrif á íbúaþróun í landinu undanfarna öl.


Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri, hefur að undanförnu skoðað áhrif menntastofnana á byggðaþróun og kynnti hluta athugana sinna á byggðaráðstefnu á Breiðdalsvík í haust.

Þar rifjaði hann upp hvernig fjölbreytt starfsgreinanám hefðu byggst upp um landið upp úr aldamótunum 1900 til að mennta fólk fyrir nýja samfélagið sem var að verða til með héraðs- alþýðu- og landbúnaðarskólum.

Upp úr 1930 hafi hafist uppbygging framhaldsskóla utan höfuðborgarsvæðisins. Tilkoma þeirra og síðar framhaldsskóladeilda hafi gert fólki kleift að sækja sér menntun án þess að flytja 16 ára að heiman.

Nú séu um 1000 nemendur í landinu á heimavist, þar af 5% framhaldsskólanema en 13% þeirra sem búi á landsbyggðinni. Á sama tíma og dreifing skólanna hafi félagsleg áhrif „byrji alltaf umræðan um að þjappa sér betur saman“ með sameiningu framhaldsskólanna.

Rannsóknir Þórodds hafa hins vegar beinst að því hvar fólk velur sér búsetu eftir háskólanám. Hann minnti á að það hefði verið byggðaaðgerð fyrir Ísland að stofna Háskóla Íslands árið 1911 því áður hefðu íslenskir háskólanemar aðallega safnast saman í Kaupmannahöfn.

Niðurstöður Þórodds benda til þess að nemendur við Háskólann á Akureyri séu líklegri til að snúa aftur heim heldur en þeir sem fara í Háskóla Íslands.

Þá virðist fjarnám háskólanna hafa talsverð áhrif en þá þurfa nemar ekki að flytjast búferlum auk þess sem auðveldara aðgengi að námi úr heimabyggð laðar fleiri á skólabekk og þeir geta þá stundað námið þegar þeim hentar. Sú tæknibylting sé að hafa mikil áhrif á háskólanám um allan heim.

„Það eru miklar breytingar framundan í háskólanámi um allan heim. Stórir alþjóðlegir skólar bjóða nám alls staðar í heiminum. Þú getur verið í Harvard frá Sauðárkróki.“

Þóroddur veltir fyrir sér hver áhrif þess verði þegar hætt verður að hugsa um háskólana sem byggingar. „Ég held að áskorunin verði mest fyrir Háskóla Íslands. Skólinn hefur menntað fjöldann og verður þá kominn í samkeppni sem hann ræður ekkert við. Á meðan gætu litlu skólarnir með áherslu á persónulega þjónustu haft tækifæri,“ sagði Þóroddur sem býst við að kynna endanlegar niðurstöður næsta sumar.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.