Þjónusta sérgreinalækna tryggð hjá HSA

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að tryggja Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) varanlegt aukið fjármagn til að tryggja áframhaldandi þjónustu sérgreinalækna við íbúa umdæmisins með samningum við Sjúkrahúsið á Akureyri og Landspítala.


Þetta kemur fram á vefsíðu Stjórnarráðsins. Þar segir að verkefnið hófst sem tilraunaverkefni í fyrra með samningum um þjónustu bæklunarlækna og þvagfæraskurðlækna. Á 12 mánaða tímabili sinntu læknarnir um 850 komum hjá einstaklingum sem annars hefðu þurft að sækja þjónustuna til Akureyrar eða Reykjavíkur.

Í greinargerð HSA um árangur verkefnisins er áætlað að ferðakostnaðargreiðslur Sjúkratrygginga Íslands hefðu numið rúmum 25 milljónum króna ef hlutaðeigandi sjúklingar hefðu þurft að sækja þjónustuna til Reykjavíkur eða Akureyrar.

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að tryggja HSA 15 milljónir króna í varanlegt aukið fjármagn til samninga við sérgreinalækna og er stofnuninni ætlað að leggja fram áætlun um hvernig þörfum íbúa verði mætt varðandi tegundir sérgreina og magn þjónustu. Jafnframt er miðað við að hluti þjónustunnar verði veittur með fjarheilbrigðistækni.

„Bent er á að ávinningurinn sé mun meiri ef horft er til þess vinnutaps sem sjúklingarnir hefðu ella orðið fyrir vegna læknisheimsókna í annan landshluta. Þá sé einnig ávinningur fólgin í því að samningarnir feli í sér beina tengingu við sérgreinasjúkrahús ef þess er þörf,“ segir á vefsíðunni.

Mynd: Stjórnarráðið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.