„Þetta er ómetanleg viðurkenning og klapp á bakið“

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslandi veitti í gær LungA, Listahátíð ungs fólks á Austurlandi, heiðursviðurkenningu við hátíðlega athöfn á afmælishátíð Erasmus+ sem fram fór í Hörpu. Björt Sigfinnsdóttir framkvæmdastjóri og Aðalheiður Borgþórsdóttir, einn af stofnendum LungA tóku við viðurkenningunni. „Þetta er ómetanleg viðurkenning og klapp á bakið, en við vonum að samstarfið við Erasmus+ haldi áfram að blómstra næstu árin,“ segir Björt.

Heiðursviðurkenningin er veitt í ár í tilefni af 30 ára afmæli Erasmus +. Í meira en áratug hefur LungA nýtt sér fjölbreytta styrki í æskulýðshluta Erasmus+ til að byggja upp fjölþjóðlega listahátíð og LungA skólann, sem er fyrsti lýðháskólinn á Íslandi. Þar er unnið út frá hugmyndafræðinni um styrkingu sjálfsins í gegnum listir og skapandi vinnu.

Áfram frábært starf hjá LungA

„Þessi misserin leggjum við mikla áherslu á uppbyggingu LungA Lab-sins eða málstofu LungA sem er afkvæmi samstarfsins við Erasmus+. LungA Lab er einhversskonar mini ráðstefna á LungA þar sem við stefnum á að vera með ennþá fleiri flotta alþjóðlega fyrirlesara og viðburði í tengslum við þema hátíðarinnar hverju sinni.“

„Þemað 2018 verður kyn eða “gender” og hlökkum við mikið til að bjóða almenningi inn í umræðuna um hvað kyn sé, hverjar hinar mismunandi birtingamyndir þess eru í samfélaginu og hvaða hlutverk það spili í lífum okkar. Þetta þema er einstaklega viðeigandi um þessar mundir en það verður spennandi að sjá hvaða vinklar koma upp á yfirborðið að þessu sinni,“ segir Björt.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.