„Þessi brottvísun er ekki í mínu nafni“

Fulltrúar allra framboða í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi taka jákvætt í að sveitarfélagið muni taka á móti flóttafólki. Enginn kveðst stoltur af brottvísun barnafjölskyldna frá landinu.

Spurt var út í afstöðu framboðanna til þess að taka á móti flóttafólki á næstu árum auk þess sem þeirri spurningu var sértaklega beint til þeirra framboða sem tengjast ríkisstjórnarflokkunum hvort þau væru stolt af því að börnum væri vísað úr landi fyrir það eitt að hafa fæðst í öðru landi á framboðsfundi Austurfréttar/Austurgluggans og sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs.

Í vikunni hefur mikið verið fjallað ummál egypskrar fjölskyldu sem kom hingað fyrir tveimur árum og sótti um pólitískt hæli vegna pólitískra ofsókna í heimalandinu. Deilt hefur verið um hvort það brjóti gegn stjórnarskrá Íslands að vísa börnum úr landi. Til stóð að fjölskyldan færi frá landinu í gærmorgunn, daginn eftir fundinn, en af því varð ekki.

„Ég segi sem oddviti VG á Austurlandi og sem manneskja: þessi brottvísun er ekki í mínu nafni,“ sagði Jódís Skúladóttir. Undir þetta tók Helgi Hlynur Ásgrímsson, annar maður listans. Þau sögðu það í stefnuskrá framboðsins að nýtt sveitarfélag tæki á móti flóttafólki.

„Það getur enginn verið stoltur af að vísa börnum úr landi, það segir sig sjálft,“ sagði Gauti Jóhannesson, oddviti Sjálfstæðisflokksins. Hann sagði það í málefnaskrá framboðsins að taka á móti flóttafólki. „Það er siðferðileg skylda okkar, sem búum við þau lífskjör sem hér eru, að rétta fólki hjálpar hönd.“

Jónína Brynjólfsdóttir, sem skipar þriðja sætið hjá Framsóknarflokki, sagði framboðið ekki með ákveðna stefnu í málefnum flóttafólks en rifjaði upp að málið hefði verið skoðað hjá sveitarfélaginu þegar Fjarðabyggð tók á móti flóttafólki. „Okkur finnst þetta spennandi verkefni sem gaman væri að skoða með ríkinu.“

Oddvitinn Stefán Bogi Sveinsson svaraði spurningunni um brottvísuna: „Nei, við eigum að geta gert mikið betur.“

Móttaka flóttafólks er heldur ekki á stefnuskrá Miðflokksins né Austurlistans. Þórlaug Alda Gunnarsdóttir, sem skipar fjórða sætið hjá Miðflokknum, sagði það siðferðilega skyldu að hjálpa fólki á flotta. Þótt Miðflokkurinn sé í stjórnarandstöðu á Alþingi svaraði hún spurningunni um brottvísuna. „Ég held að það sé enginn stoltur af þessu. Við ættum að geta gert miklu betur. Ferlið tekur of langan tíma.“

Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans, sagði að hið nýja sveitarfélag, með um 5000 íbúa, ætti að taka á móti flóttafólki. „Við Íslendingar sem þjóð getum gert betur og nú er lag að sýna gott fordæmi.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.