„Þeir hafa ennþá eitthvað til að keppa að“

„Stefnan var alltaf sett á að gera mitt besta í skólanum. Ég kem á eftir tveimur bráðgáfuðum systkinum sem dúxuðu bæði við ME, þannig var alltaf svolítil pressa á mér að dúxa líka,“ segir Gísli Björn Helgason, dúx Menntaskólans á Egilsstöðum, sem útskrifaðist með 9,93 í meðaleinkunn sem er sú hæsta í sögu skólans.



Gísli sem er fæddur árið 1998 og lauk náminu því á þremur árum. Hann fékk 10 í öllum áföngum nema tveimur enskuáföngum og íþróttum, þar sem hann fékk 9. Hann hlaut alls átta verðlaun fyrir hin ýmsu fög ásamt verðlaunum fyrir framúrskarandi ástundun og félagsstörf.

„Lykilinn að góðum árangri er að skipuleggja sig og hafa trú á sjálfum sér. Ég geri þær kröfur til mín að vinna öll verkefni mín vel til þess að vera ánægður með sjálfan mig. Það hefur sína kosti og galla. Ég náði góðum árangri í skólanum.

Á fyrsta árinu mínu gekk mér mjög vel, með 10 í öllu nema í enskuáföngum á sitt hvorri önninni og íþróttum. Eftir það ákvað ég að stefna að því að ná 10 í öllum áföngum á einni önn. Það tókst strax á fyrstu önn næsta skólaárs, og reyndar náði ég þeim árangri út skólagöngu mína.

Þetta er vissulega svolítið há meðaleinkunn og hún kom mér á óvart. Ég vona að ég sé ekki búinn að eyðileggja neitt fyrir komandi ME-ingum. Þeir hafa ennþá eitthvað til að keppa að. Það er það fallega við þessar fáu níur sem ég fékk.“


Æfði og þjálfaði fótbolta og vann með skólanum
Gísli Björn segist hafa nýtt verkefnatíma í skólanum vel og klárað mest allt sitt námsefni þar. „Ég gat hinsvegar lítið lært eftir skóla sökum fótboltans. Ég æfði stíft með meistarflokki og seinasta veturinn minn var ég einnig að þjálfa yngri flokka Hattar í knattspyrnu. Auk þess var ég að vinna sem liðveitandi hjá Félagsþjónustu Fljótsdalshéraðs. Þannig endaði ég oftast með einhver verkefni til að vinna á kvöldin og um helgar. Af þeim sökum var nánast enginn tími í sjónvarpsgláp eða tölvuleikjaspilun, enda varð ég að fórna einhverju fyrir námið. Kærastan og vinirnir fengu alls ekki eins mikla athygli frá mér og ég hefði viljað. Ég bæti þeim það upp í sumar.“

Spannakerfið ýtti undir velgengni í námi
Gísli Björn segist kunna vel við spannakerfið sem tók við af hinu hefðbundna annakerfi í Menntaskólanum á Egilsstöðum fyrir nokkrum árum. „Það hefur hentað mér vel og skiptir hverri önn í tvennt og því eru færri áfangar sem maður þarf að hugsa um í einu og að sama skapi er yfirferð efnis snarpari. Ég gat þannig einbeitt mér að færri áföngum í einu sem ýtti eflaust undir velgengni mína í náminu.“

Spannakerfið hamlar ekki félagslega þættinum
Athygli vekur að Gísli Björn var með 100% skólasókn og var sá eini í hópi útskriftanema sem var með 10 í mætingareinkunn. Hann segir að spannakerfið ekki hafa hamlað sér við að sinna félagslega þættinum.

„Í þessum snörpu lotum gefst að margra mati lítill tími til félagsstarfa og telja margir nemendur sig eiga erfitt með að sinna þeim samhliða námi. Ég sat í nemendaráði öll mín námsár, var formaður Bindindismannafélags ME, sat lengst af í umhverfisráði skólans og keppti í Gettu betur fyrir skólans hönd. Að mínu mati er vel hægt að sinna slíkum störfum með námi. Það eru hins vegar of fáir nemendur sem taka virkan þátt í félagsstörfum skólans, og þar af leiðandi lendir meiri vinna á fáum höndum. Virkja þarf mun fleiri nemendur til þess að sinna þessum málum, því slík vinna er mjög gefandi og mikil reynsla sem nýtist eflaust betur en sumt bóknám.“

Græddi marga daga á sinni edrúmennsku
Gísli Björn endurvakti Bindindismannafélag ME og gengdi þar formennsku. Telur hann að sú staðreynd, að hann drekki ekki áfengi, skipti sköpum í velgengni hans í námi? „Það er erfitt að segja. Ef ég hefði látið Bakkus freista mín á menntaskólagöngu minni þá hefði ég sennilega eytt meira púðri í félagslífið og gefið eftir í skólanum. Ég veit fyrir víst að sökum bindindsmennsku þá græddi ég marga daga til að læra, sem annars hefðu kannski orðið timburmönnum að bráð.“

Ekki aðalmarkmiðið að dúxa
Gísli stefnir á nám við Háskóla Íslands í haust og segir valið standa á milli jarðeðlisfræði, umhverfis- og byggingarverkfræði eða kennaranáms. „Ég reyni auðvitað að gera mitt besta og sinna háskólanáminu vel, en að dúxa verður kannski ekki aðalmarkmiðið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.