„Það eina sem ég hef lært er af reynslunni“

Í bílskúr á Egilsstöðum er Víðir Sigbjörnsson að vinna í járn. Hann er mörgum Austfirðingum að góðu kunnu enda hefur hann oft bjargað íhlutum með skömmum fyrirvara ef þeir hafa bilað. Víðir hefur þessar viðgerðir að áhugamáli og telst sjálfmenntaður í faginu.

„Það voru góðir félagar sem kenndu manni í byrjun en þetta lærist með reynslunni. Það er það eina sem ég hef lært.

Þetta byrjaði á jeppanum mínum. Maður átti ekki peninga til að láta gera við þannig maður gerði það sjálfur. Þá kemur reynsla og áhuginn á að geta gert meira.

Ég segi stundum að ég hafi keypt rafsuðutransara fyrir fermingarpeningana. Það var ekkert gaman í skólanum, þar var erfitt,“ segir Víðir en litið var inn til hans í síðasta þætti Að Austan á N4.

Til Víðis er gjarnan leitað þegar járnstykki bila eða brotna eða eru hreinlega ófáanleg. Hann hefur getið sér góðs orðs fyrir að koma hlutunum í lag. „Járn er rosalega skemmtilegt, það er hægt að vinna það á allan hátt. Spýtur eru leiðinleg fyrirbrigði. 

Það er voðalega vont að gefast upp og segja að eitthvað sé ekki hægt. Maður reynir lengi áður en maður gefst upp en það hefur þó komið fyrir. Það skiptir líka að spyrja af hverju bilaði hluturinn og hvað hægt sé að gera til að hann bili ekki aftur. Ég nenni ekki að vera með tækið í bílskúrnum hverja helgi.“

Aðalstarf Víðis er hins vegar hjá Rafey þar sem hann gerir við vörubíla. „Ég vinn við það flesta daga, stundum langt fram á kvöld. Ég verð til að hjálpa meðan ég dreg andann.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.