„Þetta er ólíðandi ástand“

Kirkjuklukkunum víða á Austurlandi verður hringt klukkan fimm síðdegis næstu daga til að vekja athygli á ástandinu í Sýrlandi og til að minnast þeirra sem látist hafa.



Framtakið á upphaf sitt að rekja til finnska prestsins Teemu Laajasalo í Kallio sókn í lútersku kirkjunni í Finnlandi. Honum sveið ástandið og ákvað að klukkum í hans kirkju skyldi hringt daglega 12.- 24. október, en 24. október er dagur Sameinuðu þjóðanna. kirkjur í Svíþjóð, Bretlandi og víða í Evrópu hafa gert slíkt hið sama.

Á Íslandi er klukkum hringt frá 24. til 31. október, en það er siðbótardagurinn. Á Austurlandi verður hringt í Egilsstaðakirkju, Eiðakirkju og Seyðisfjarðarkirkjum og líklega víðar.


„Alþjóðasamfélagið verður að stoppa þetta“

„Okkur svíður þetta öllum, þetta er ólíðandi ástand og alþjóðasamfélagið verður að stoppa þetta. Þetta stríð hefur staðið yfir í fimm ár og aldrei hafa verið svo margir flóttamenn í heiminum, ekki einu sinni í seinni heimstyrjöldinni og enn eru milljónir að bætast við. Við viljum vekja sem mesta athygli á þessu átaki til að alþjóðasamfélagið ranki við sér og krefjist þess að lausn verði fundin. Það getur ekkert réttlætt þjáningar barna og óbreyttra borgara í Aleppo.,“ segir Sigríður Rún Tryggvadóttir, prestur í Egilsstaðaprestakalli.

Sigríður segir mikinn áhuga vera fyrir því að taka þátt í viðburðinum og muni fólk skiptast á að hringja klukkunum á Seyðisfirði og á Egilsstöðum. „Við erum svo vanmáttug og vitum ekki hvað við getum gert, en getum þó sýnt þennan samhug.“


http://bellsforaleppo.org/

#BellsForAleppo

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.