„Þetta er ein af mínum uppáhaldssögum“

„Aðventa er ein af mínum uppáhaldssögum, ég les hana alltaf um jólin og núna er átta ára sonur minn byrjaður að taka þátt í þessu með mér,“ segir Ottó Geir Borg, en hann hlaut nýverið hæsta styrkinn sem Menningarsjóður Gunnarsstofnunar úthlutaði í ár.

Er þetta annað árið sem úthlutað er úr sjóðnum, en það vað gert á alþjóðlega safnadaginn 18. maí sem jafnframt er fæðingardagur Gunnars Gunnarssonar. Ottó Geir og Kvikmyndafélag Íslands hlutu styrkinn til áframhaldandi vinnu við handrit að kvikmynd eftir sögunni Aðventu.

Menningarsjóðurinn var stofnaður árið 2013 og honum stýrir þriggja manna stjórn. Að þessu sinni lagði sjóðsstjórnin sérstaka áherslu á verkefni sem tengjast ritverkum og ævi Gunnars en sjóðnum er ætlað að styðja rithöfunda, listamenn, fræðimenn og námsfólk til verka er samræmast hlutverki Gunnarsstofnunar. Sex umsóknir bárust og fjórir styrkir voru veittir.

Gunnar Gunnarsson lagði grunninn að sinni vinsælustu sögu, Aðventu, með smásögunni Góða hirðinum (Den gode Hyrde) í tímaritinu Julesne 1931. Söguna byggði hann á frásögn Fjalla-Bensa, Benedikts Sigurjónssonar, af svaðilförum við eftirleitir á Mývatnsöræfum. Sagan hefur verið gefin út á tíu tungumálum um víða veröld og alls staðar selst vel og hefur hún selst í yfir milljón eintökum frá því hún kom út fyrir tæpum 70 árum.

Tók sex ár að koma Ég man þig í bíó
Ottó Geir Borg er einn ástsælasti handritshöfundur landsins og aðlagaði meðal annars Ég man þig eftir samnefndri bók Yrsu Sigurðardóttur sem var nýlega frumsýnd í bíóhúsum landsins.

Mig hefur lengi dreymt um að upplifa galdur hennar á hvíta tjaldinu – finna fyrir veðrinu, víðáttunni, kærleikanum og vináttu þrenningarinnar. Sagan er tímalaus, rammíslensk og dregur upp sterka mynd af sambandi manns og dýra og duttlungum veðursins um vetrarmánuðina,“ segir Ottó Geir í samtali við Austurgluggann.

Ottó Geir segist afar þakklátur Gunnarsstofnun fyrir stuðninginn. „Það er frábært að hafa orðið fyrir valinu og finna fyrir áhuga stofnunarinnar við að koma þessu verkefni í góðan farveg. Það eru tvö ár síðan ég byrjaði að skrifa og fyrstu drög liggja fyrir en oftast er það aðeins byrjunin á ferlinu. Nú held ég áfram og nýti styrkinn í frekari rannsóknarvinnu og endurskrif.“

Ottó Geir segir ómögulegt að segja hvenær handritið muni verða tilbúið. „Maður skrifar ekki stanslaust, það er gott að leggja handrit í salt annað slagið og líta á það eftir einhvern tíma. Eftir að lokadrög liggja fyrir fer það trúlega í þýðingu til að kynna það væntanlegum meðframleiðendum en þeir eru nauðsynlegir þar sem um afar metnaðarfullt og kostnaðarsamt verkefni er að ræða. Ég var að vinna í handritinu að Ég man þig í fimm ár þar til myndin fór í rúmlega árslangt tökuferli og eitthvað svipað með Astrópíu, þannig að ég er alveg rólegur. Svona verkefni verður bara tilbúið þegar það er tilbúið.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.