Telur Flugfélagið vel sett með vélar

Forstjóri Flugfélags Íslands segir að í öllum rekstri komi alltaf upp vandamál sem ekki sé hægt að sjá fyrir. Félagið felldi niður miðdegisflug í Egilsstaði í gær og notaði þotu í kvöldflugið vegna skorts á flugvélum.


Farþegar sem áttu bókað til eða frá Egilsstöðum um miðjan dag í gær urðu fyrir fjögurra tíma seinkunn þar sem flugið var fellt niður og það sameinað kvöldflugið. Það var farið með þotu sem leigð var frá Icelandair, systurfélagi Flugfélagsins innan Icelandair Group.

Þetta er hins vegar ekki í fyrsta skipti á undanförnum vikum sem austfirskir farþegar verða fyrir óþægindum því vélar vantar í flotann.

„Það hefur við unnið við ákveðin viðhaldsverkefni hjá okkur á vélunum okkar sem hafa tekið lengri tíma en áætlað var og þess vegna hefur þetta komið til,“ segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Flugfélags Íslands.

Flugfélagið lagði í fyrra fimm Fokker 50 vélum en keypti í staðinn þrjár hraðskreiðari, nýrri og stærri Bombardier Q400 vélar. Einnig hefur það 37 sæta Q200 vélar sem nýtast til dæmis á Ísafirði þar sem stærri vélarnar geta ekki lent.

Á sama tíma var bætt við nýjum áfangastað á Grænlandi og Aberdeen í Skotlandi. Í síðustu viku hófst nýtt flug milli Akureyrar og Keflavíkur og í sumar bætist Belfast á Norður-Írlandi í hóp áfangastaðanna, en flugin til Bretlandseyja eru farin í samstarfi við Icelandair.

En hefur félagið nógu margar vélar til að standa undir öllum þessum áfangastöðum? „Við höfum nægar vélar til að sinna áætlun en auðvitað eins og í öðrum rekstri geta komið upp atriði sem ekki er hægt að sjá fyrir sem hafa áhrif á áætlun hjá okkur en við teljum okkur almennt vera vel sett.“

Farþegar sem áttu flug með félaginu í gær geta átt rétt á bótum vegna tafanna. Aðspurður um rétt þeirra segir Árni aðstæður hvers og eins geta verið mismunandi og vísar því á nánari upplýsingar á vef Samgöngustofu. 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.