Telja að hreppsnefnd hefði átt að hafa lokaorðið um laun oddvita sem sveitarstjóra

Minnihlutinn í hreppsnefnd Vopnafjarðarhrepps átelur oddvita sveitarstjórnar fyrir vinnubrögð hans við launaútreikning til síns er hann leysti tímabundið af sem staðgengill sveitarstjóra. Oddvitinn segist hafa leitað álits Sambands íslenskra sveitarfélaga við ákvörðunina.

Þetta kemur fram í fundargerð síðasta sveitarstjórnarfundar Vopnafjarðarhrepps. Eftir að Sara Elísabet Svansdóttir hætti sem sveitarstjóri í byrjun apríl tók Axel Örn Sveinbjörnsson, oddviti sveitarstjórnar, tímabundið við starfinu.

Í erindi sem minnihluti Vopnafjarðarlistans lagði fyrir síðasta sveitarstjórnarfund er spurt út í launagreiðslur á þeim tíma og hvernig ákvörðun hafi verið tekin um þær.

Í svari Axels kemur fram að heildargreiðslur hafi verið rúm 1,55 milljónir króna, þar af grunnlaun upp á tæpa 1,1 milljón og yfirvinna upp á tæp 450 þúsund. Oddvitalaun hans voru á móti felld niður.

Þar segir einnig að með bókun sveitarstjórnar þann 5. mars hafi verið ákveðið að Axel tæki starfið að sér þar til nýr einstaklingur fengist í starfið. Þá hafi verið leitað álits yfirlögfræðings Sambands íslenskra sveitarfélaga um túlkun á bókuninni og forsendur tímabundinna greiðslna.

Í bókun minnihlutans er lýst óánægju með að ákvörðunin um launagreiðslurnar hafi ekki verið borin undir sveitarstjórn. Gott og gilt sé að fá ráðleggingar Sambands íslenskra sveitarfélaga en lokaorðákvörðunin eigi að vera í höndum hreppsnefndar. Minnihlutinn telur því Axel ekki hafa haft heimild fyrir launagreiðslunni. Það sé ámælisvert því með því hafi hann farið frjálslega með fjármuni sveitarstjórnar.

Þar er einnig gagnrýnt að Axel hafi ekki sjálfur mætt til fundarins til að svara fyrir málið. Hann lagði svörin fram skriflega en boðaði forföll. Fyrri fundinum lá einnig erindi frá honum um leyfi frá sveitarstjórnarstörfum fram til 1. júní. Leyfið var samþykkt samhljóða þótt Vopnafjarðarlistinn bókaði að óeðlilegt væri að engar sérstakar skýringar væru gefnar á ástæðum leyfisins í erindinu.

Aðalbjörg Ósk Sigmundsdóttir, varaoddviti, hefur tekið við störfum á meðan. Sigurður Grétar Sigurðsson verður aðalmaður í hreppsráði og Jenný Heiða Hallgrímsdóttir aðalmaður í sveitarstjórn.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.