Tekið á móti Hafdísi á Fáskrúðsfirði

Björgunarsveitin Geisli á Fáskrúðsfirði tók á móti Hafdísi, nýjum yfirbyggðum sjúkrahraðbát á sjómannadaginn. Sveitin fagnaði jafnframt 50 ára afmæli um sömu helgi.

 

Hafdís kom í höfn á laugardaginn 4. júní og var komunni fagnað í afmæliskaffi í Skrúði á vegum slysavarnadeildarinnar Hafdísar á sjómannadaginn.

Söfnun fyrir kaupum á bátnum hefur staðið yfir í á annað ár og margir lagt henni lið. Þegar tekið var á móti bátnum hafði nánast tekist að safna fyrir fullum kostnaði, en þó vantaði um 3 milljónir upp á.

Í kaffisamsætinu á sunnudag færði Friðrik Mar Guðmundsson, framkvæmdastjóri LVF, björgunarsveitinni peningagjöf fyrir því sem uppá vantaði frá Kaupfélagi Fáskrúðsfirðinga og Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði.

Hafdís er smíðuð af bátasmiðjunni Rafnar í Kópavogi og er fjórði bátur sinnar tegundar. Um yfirbyggðan hraðbát er að ræða sem náð getur allt að 40 sjómílna hraða. Hafa Hjálparsveit Skáta í Kópavogi og Landhelgisgæslan fengið sambærilega báta úr smiðju Rafnars en þeir eru hannaðir til að fara hratt yfir án þess að lemjast niður og fara því betur með til dæmis beinbrotna sjúklinga.

Óskar Þór Guðmundsson leiddi vinnuna við söfnun og kaup á Hafdísi, hann segir komu bátarins ótrúlega framför og líkir henni við að flytja úr torfkofa í upphitað einbýlishús með öllum nútíma þægindum. Áður notaðist sveitin við harðborna gúmmíbát eins og flestar björgunarsveitir á landinu og segir Óskar framförina ekki hvað síst felast í því að hafa upphitaða yfirbyggingu auk tækninýjunga en nýja Hafdísin býr meðal annars yfir hitamyndavél sem nýst getur við leit á sjó.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.