Tæplega 100 milljóna hagnaður Vopnafjarðarhrepps

Rekstur Vopnafjarðar var jákvæður um 97 milljónir króna í fyrra. Skuldahlutfall sveitarfélagsins er um 60% sem er með því besta á landinu.


Ársreikningur sveitarfélagsins var tekinn til fyrri umræðu á fundi sveitarstjórnar fyrir helgi. Samkvæmt bókun var hagnaður ársins 97 milljónir, þar af 44 milljónir úr A hluta.

Skuldir og skuldbindingar voru samanlagt 638 milljónir, þar af 565 milljónir í A-hlutanum. Skuldahlutfallið er 59,9% og hafði lækkað um tæp 3%. Samkvæmt reglum má það ekki vera meira en 150%.

Veltufé frá rekstri var 163 milljónir, þar af komu tæpar 90 milljónir úr A-hlutanum. Þessar tölur þýða að Vopnafjarðarhreppur er í hópi best stæðu sveitarfélaga landsins.

Til A-hluta telst starfsemi sem að hluta eða öllu leyti er fjármögnuð með skatttekjum. Hjá Vopnafjarðarhrepp er um að ræða aðalsjóð, en auk hans eignasjóð og þjónustumiðstöð.

Til B-hluta teljast fjárhagslega sjálfstæð fyrirtæki sem að hálfu eða meirihluta eru í eigu sveitarfélagsins, en rekstur þessara fyrirtækja er fjármagnaður með þjónustutekjum. Fyrirtæki sem falla undir B-hluta starfsemi sveitarfélagsins eru Hafnarsjóður, Vatnsveita, Fráveita, Félagslegar íbúðir, Leiguíbúðir aldraðra, Legudeildin Sundabúð, Lyfsala, Skiphólmi ehf. og Arnarvatn ehf.

Ársreikningurinn verður tekinn til annarrar umræðu í næstu viku.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar